Íslenski boltinn

Blikar með fimm stigum minna en á sama tíma í fyrra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eftir góða byrjun á tímabilinu hefur fjarað undan Blikum.
Eftir góða byrjun á tímabilinu hefur fjarað undan Blikum. vísir/bára

Breiðablik er með fimm stigum minna en liðið var með eftir sjö umferðir í Pepsi Max-deild karla á síðasta tímabili.

Blikar lutu í lægra haldi fyrir Valsmönnum í gær, 1-2, og eru án sigurs í síðustu fjórum deildarleikjum sínum.

Breiðablik er með ellefu stig eftir sjö leiki í 4. sæti Pepsi Max-deildarinnar. Eftir sjö umferðir í fyrra voru Blikar með sextán stig á toppi deildarinnar, jafn mörg og Skagamenn en hagstæðari markatölu.

Blikar enduðu í 2. sæti deildarinnar í fyrra með 38 stig og voru fjórtán stigum á eftir Íslandsmeisturum KR-inga. Eftir tímabilið var Ágúst Gylfason látinn taka pokann sinn og við tók Óskar Hrafn Þorvaldsson sem hafði komið Gróttu upp um tvær deildir á jafn mörgum árum.

Breiðablik byrjaði þetta tímabil af miklum krafti og vann fyrstu þrjá deildarleiki sína með markatölunni 7-1. En Blikar hafa ekki unnið deildarleik síðan þeir sigruðu Fjölni, 3-1, 29. júní.

Breiðablik gerði jafntefli við KA og FH og hefur síðan tapað tveimur leikjum í röð fyrir KR og Val. Blikar eru nú fjórum stigum á eftir toppliði KR-inga sem á auk þess leik til góða.

Eftir leikinn í gær sagði Óskar Hrafn að úrslitin hefðu verið ósanngjörn. „Bara þjófnaður, hreinn og beinn þjófnaður hjá Val. Við áttum allan seinni hálfleikinn en byrjunin á leiknum var kannski ekkert sérstaklega góð hjá okkur,“ sagði Óskar Hrafn við Vísi.

Kollegi hans hjá Val, Heimir Guðjónsson, var ekki á sama máli. „Mér fannst þetta ekki vera rán en auðvitað áttu þeir sína möguleika. Ég man samt ekki eftir því að Hannes [Þór Halldórsson] hafi þurft að taka á honum stóra sínum. En eins og ég sagði áðan þá eru þeir frábærir út á vellinum, láta boltann ganga hratt á milli manna en mér fannst þeir ekki skapa mikið af opnum færum á móti okkur,“ sagði Heimir.

Næsti leikur Breiðabliks er gegn nágrönnunum í HK í Kórnum á fimmtudagskvöldið. HK-ingar hafa farið illa af stað og eru með fimm stig í 10. sæti deildarinnar. HK hefur tapað öllum þremur heimaleikjum sínum og fengið á sig flest mörk allra í Pepsi Max-deildinni, eða nítján talsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×