Íslenski boltinn

„Ætlast til að Blikarnir stígi upp og sýni að þeir séu meistarakandídatar“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Máni Pétursson
Máni Pétursson Vísir/Skjáskot

Breiðablik fær Val í heimsókn í öðrum af stórleikjum dagsins í Pepsi Max deild karla í fótbolta en einu stigi munar á liðunum í 3. og 5.sæti deildarinnar.

„Ég er spenntur fyrir því. Menn verða að hafa þolinmæði fyrir því sem Blikar eru að gera. Þegar verið að breyta leikstíl og færslum er eðlilegt að það taki tíma. Ég er hrifinn af því sem Blikar eru að gera og ég held með þeim,“ segir Máni Pétursson, einn af sérfræðingum Pepsi Max markanna í sumar.

Óskar Hrafn Þorvaldsson tók við stjórnartaumunum hjá Breiðabliki í vetur og eru miklar væntingar bundnar við ráðninguna. Máni er sannfærður um að framtíðin sé björt í Smáranum. 

„Það er frábært að vera að keyra á hugmyndafræði og vera með plan. Ég held að þetta sé rétt leið upp á framtíðina. Hvort það muni kosta þá eitthvað á þessari leiktíð verður bara að koma í ljós.“

Blikar töpuðu sínum fyrsta leik í síðustu umferð þegar þeir lágu í valnum að Meistaravöllum þar sem KR vann sannfærandi 3-1 sigur.

„Mér fannst þeir bogna í síðasta leik. Það hefur ekkert með leikkerfi að gera heldur með karakterana í liðinu. Það eru frábærir leikmenn í Blikaliðinu og frábærir karakterar og ég ætlast til þess að þeir stígi upp og sýni að þeir séu verðugir meistarakandídatar,“ segir Máni.

Leikur Breiðabliks og Vals hefst klukkan 20 og hefst útsending frá Kópavogsvelli klukkan 19:30 á Stöð 2 Sport.

Klippa: Máni um Breiðablik



Fleiri fréttir

Sjá meira


×