Erlent

Trump gefur ekki upp hvort hann myndi taka tapi í kosningunum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Trump hvorki staðfestir né hafnar að hann muni taka mögulegu tapi í kosningunum.
Trump hvorki staðfestir né hafnar að hann muni taka mögulegu tapi í kosningunum. Drew Angerer/Getty

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, neitar að staðfesta eða hafna því að hann muni taka tapi, komi til þess að hann vinni ekki bandarísku forsetakosningarnar sem fram fara í nóvember á þessu ári. The Guardian greinir frá þessu.

Í könnun á vegum bandarísku fréttamiðlanna ABC og Washington Post, þar sem þátttakendur voru spurðir hvern þeir myndu kjósa, leiðir Joe Biden, fyrrverandi varaforseti og sá frambjóðandi sem líklegastur er til þess að veita Trump einhverja samkeppni, með 11 prósentustigum. Í mars var Biden tveimur prósentustigum yfir Trump, en tíu stigum í maí.

Trump hefur hins vegar tekið fyrir það að kannanir sem þessi hafi eitthvert raunverulegt gildi. Þær séu einfaldlega falsaðar. Þetta kom fram í máli hans í viðtali sem Fox-fréttastofan tók við hann í dag. Þar sagðist hann heldur ekki vilja staðfesta hvort hann myndi taka mögulegum ósigri í kosningunum í nóvember.

„Ég verð að sjá til. Ég ætla ekki bara að svara játandi. Ég ætla heldur ekki að svara neitandi, ég gerði það ekki heldur síðast,“ sagði Trump, og vísaði til þess að hann hefði ekki gefið út neinar yfirlýsingar af þessum meiði fyrir kosningarnar 2016, sem hann vann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×