Erlent

Heitir því að koma aldrei á grímuskyldu

Andri Eysteinsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Getty/Jabin Botsford

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í viðtali við Fox News að hann muni aldrei gera það að skyldu að klæðast andlitsgrímu í ríkinu. Helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjanna mældi nýlega með því vegna þess eiginleika grímnanna að þær geti hjálpað við að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar.

Dr. Anthony Fauci sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjastjórnar hvatti ríkisstjóra og sveitastjórnir Bandaríkjanna til þess að beita sér af öllum mætti fyrir því að gera það að skyldu að bera grímu fyrir vitum sínum. BBC greinir frá.

„Það er mjög mikilvægt og við ættum öll að nota þær,“ sagði Fauci.

Grímuskyldan hefur orðið mikið hitamál í Bandaríkjunum og hefur fjöldi ríkisstjóra sagt að það sé undir hverjum og einum komið hvort hann klæðist grímu á meðal almennings. Þó hafa aðrir ríkisstjórar verið á öndverðum meiði. Til dæmis má þar nefna repúblikanann Kay Ivey, ríkisstjóra Alabama sem snerist hugur þegar kom að grímuskyldu og innleiddi hana í ríkinu.

Forsetinn sjálfur hefur verið andsnúinn því að bera grímu fyrir vitum sér en til hans sást með eina slíka í fyrsta sinn fyrir viku síðan. Í viðtalinu við Fox News sagði Trump að fólk ætti að hafa frelsi til þess að ráða því sjálft hvort það klæðist grímu eður ei.

Líkt og dr. Fauci hefur yfirmaður Sóttvarnarstofnunar Bandaríkjanna (CDC) gefið út yfirlýsingu þar sem mælt er með því að allir klæðist grímum til að reyna að ná tökum á faraldrinum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×