Erlent

Fauci segir ófrægingarherferð Bandaríkjastjórnar gegn sér vera furðulega

Andri Eysteinsson skrifar
Anthony Fauci stýrir Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna.
Anthony Fauci stýrir Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna. Vísir/EPA

Dr. Anthony Fauci helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjanna segir að tilraunir Hvíta hússins til þess að koma óorði á sig vera furðulegar. Fauci hvetur þá íbúa Bandaríkjanna til að hætta kjánaskapnum og takast á við faraldur kórónuveirunnar.

Fauci, sem hefur lýst sig mótfallinn því að ræsa samfélag Bandaríkjanna að nýju með þeim hraða sem yfirvöld kjósa, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir þær skoðanir sínar af Donald Trump Bandaríkjaforseta auk margra flokksfélaga forsetans úr röðum Repúblikana.

Borið hefur á því undanfarnar vikur og daga að faraldurinn blossi upp með miklum hraða í þeim ríkjum sem opnuðu hvað hraðast og fylgdu ekki ráðgjöf Fauci.

„Eitt af vandamálunum er þessi sundrung í samfélaginu og með henni er orðið erfitt að átta sig á því hvað hefur gengið vel og hvað illa,“ sagði Fauci í viðtali við The Atlantic.

„Við verðum að núllstilla okkur, hætta þessum kjánaskap og komast að því hvernig við getum náð stjórn á þessu,“ sagði sérfræðingurinn.

Á dögunum gaf Hvíta húsið út lista af staðhæfingum Fauci vegna faraldursins sem ekki reyndust standast skoðun þegar hann var farinn af stað. Bandaríkjaforseti sagði þá í dag að hann kynni að meta ráðleggingar Fauci en sagðist ekki alltaf sammála honum.

„Mér finnst þetta smá furðulegt. Ég skil þetta ekki alveg,“ sagði Fauci spurður um þessa ófrægingarherferð ríkisstjórnarinnar.

Fauci sagði að staðreyndin væri sú að tilfellum kórónuveirunnar væri að fjölga í landinu og Bandaríkjamenn yrðu að gera betur. Ríki þyrftu að samhæfa aðgerðir sínar og vinna að sama markmiði.

„Í stað þess að velta þessum leikjum ráðamanna fyrir okkur, þá skulum við einbeita okkur að verkefninu,“ sagði Fauci.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.