Íslenski boltinn

Voru ekki í sóttkví en hafa samt ekki spilað deildarleik í tuttugu daga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá síðasta leik Þór/KA liðsins í Pepsi Max deildinni sem var á móti Val á Hlíðarenda fyrir tuttugu dögum síðan.
Frá síðasta leik Þór/KA liðsins í Pepsi Max deildinni sem var á móti Val á Hlíðarenda fyrir tuttugu dögum síðan. Vísir/Vilhelm

Þór/KA fær FH í heimsókn í kvöld í 6. umferð Pepsi Max deildar kvenna. Þetta verður samt bara fjórði leikur norðanliðsins í deildinni. Leikurinn fer fram á Þórsvelli á Akureyri og hefst klukkan 18.00.

Þór/KA byrjaði Pepsi Max deildina frábærlega með því að vinna tvo fyrstu leikina með markatölunni 8-1. Þriðji leikurinn fór hins vegar illa þegar liðið steinlá 6-0 á móti Íslandsmeisturum Vals á Hlíðarenda.

Þór/KA hefur ekki spilað deildarleik síðan en lék reyndar í Mjólkurbikarnum um síðustu helgi eins og öll hin liðin.

Þór/KA var samt ekki sent í sóttkví eins og lið Breiðabliks KR og Fylkis. Það hittist bara þannig á að leikir liðsins voru á móti liðunum í sóttkví.

Þetta þýðir að Þór/KA konur eru í kvöld að leika sinn fyrsta deildarleik í tuttugu daga. Þær hafa því fengið mjög langan tíma til að hugsa um það sem fór úrskeiðis á Hlíðarenda.

Þór/KA vann 1-0 sigur á Keflavík í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarsins á laugardaginn og hefur því unnið alla þrjá heimaleiki sumarsins.

Mótherjar kvöldsins úr FH komust líka áfram í átta liða úrslit Mjólkurbikarsins en þær eru aftur á móti ennþá stigalausar eftir fjóra leiki í Pepsi Max deildinni.

Þrír aðrir leikir fara fram í Pepsi Max deild kvenna í kvöld. ÍBV tekur á móti Breiðabliki klukkan 17.30 á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum og klukkan 19.15 mætast Stjarnan og KR í Garðabæ og Þróttur tekur á móti Selfossi í Laugardalnum.

KR og Breiðablik eru þar að spila sína fyrstu deildarleiki í þrjár vikur en Fylkiskonur þurfa að bíða þar til á morgun eftir sínum fyrsta deildarleik. Valur tekur þá á móti Fylki á Hlíðarenda og verður leikurinn í beinni á Stöð 2 Sport.

Bið liðanna í Pepsi Max deild kvenna eftir síðasta deildarleik:

  • 21 dagur - KR (Fór í sóttkví)
  • 21 dagur - Breiðablik (Fór í sóttkví)
  • 21 dagur - Fylkir (Fór í sóttkví)
  • 20 dagar - Þór/KA
  • 14 dagar - ÍBV
  • 13 dagar - Selfoss
  • 8 dagar - Valur
  • 8 dagar - Stjarnan
  • 8 dagar - FH
  • 8 dagar - Þróttur R.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.