Íslenski boltinn

Sjáðu sigurmark Arnórs Borg Guðjohnsen og tvennu Pablo sem afgreiddi Blika

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR-ingar fagna marki Stefáns Árna Geirssonar í gær og þar á meðal er Pablo Punyed sem átti eftir að skora tvö mörk í leiknum.
KR-ingar fagna marki Stefáns Árna Geirssonar í gær og þar á meðal er Pablo Punyed sem átti eftir að skora tvö mörk í leiknum. Vísir/Bára

Fylkir og KR komust upp fyrir Blika og í tvö efstu sæti Pepsi Max deildar karla í fótbolta eftir góða sigra í sjöttu umferðinni í gærkvöldi.

Fylkir og KR eru bæði með tólf stig en Fylkismenn eru ofar á markatölu og sitja því í toppsætinu næstu dagana.

Fylkismenn sóttu þrjú stig í Kaplakrikann með því að vinna FH 2-1. Þórður Gunnar Hafþórsson kom Fylki í 1-0 og varamaðurinn Arnór Borg Guðjohnsen tryggði Árbæjarliðinu svo sigurinn fjórum mínútum eftir að hann kom inn á völlinn og fimm mínútum eftir að Daníel Hafsteinsson hafði jafnað metin fyrir FH.

Arnór Borg Guðjohnsen var nálægt því að skora með sinni fyrstu snertingu í sínum fyrsta leik í sumar en hafði síðan þurft að bíða aðeins eftir fyrsta markinu í Pepsi Max deildinni. Það kom hins vegar á besta tíma fyrir Fylki og kom liðinu á toppinn.

Hinn tvítugi Stefán Árni Geirsson var óvænt í byrjunarliði KR í 3-1 sigri á toppliði Breiðabliks og þakkaði traustið með því að skora fyrsta mark leiksins á annarri mínútu.

Það var aftur á móti El Salvadorinn Pablo Punyed sem gerði útslagið með tveimur mörkum en á milli þeirra minnkaði Höskuldur Gunnlaugsson muninn í 2-1.

Hér fyrir neðan má sjá mörkin úr þessum tveimur skemmtilegum fótboltaleikjum í gær.

Klippa: Mörkin úr leik KR og Breiðabliks
Klippa: Mörkin úr leik FH og Fylkis


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.