Enski boltinn

Henderson til Chelsea?

Ísak Hallmundarson skrifar
Henderson í leik gegn Chelsea í gær.
Henderson í leik gegn Chelsea í gær.

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, er sagður hafa áhuga á að fá markmanninn Dean Henderson í sínar raðir. Henderson spilar með Sheffield United að láni frá Manchester United.

Chelsea hefur verið í miklum vandræðum með markvarðarstöðuna á tímabilinu og fengið á sig 49 mörk, en það þarf að fara niður í 12. sæti í töflunni til að finna lið sem hefur fengið á sig fleiri mörk.

Kepa Arrizabalaga hefur byrjað flesta leiki í markinu hjá Chelsea, en hann þótti ekki standa sig vel og var tekinn út úr byrjunarliðinu í fimm leiki í febrúar og í stað hans fór Willy Caballero í markið. Caballero náði hinsvegar ekki að heilla Frank Lampard og fór Kepa aftur í markið í marsmánuði.

Dean Henderson hefur farið á kostum með Sheffield í vetur og haldið tólf sinnum hreinu í 32 leikjum. Hann hefur verið nefndur sem framtíðarmarkmaður Manchester United og enska landsliðsins. Hinsvegar er David de Gea aðalmarkvörður Man Utd og virðist ekkert vera á förum. Henderson er ekki tilbúinn að sætta sig við að vera varamarkvörður og því líklegt að hann verði áfram á láni hjá Sheffield eða fari eitthvert annað. 

Chelsea skoðar nú þann möguleika að fá Henderson í markið hjá sér. Þeir eru sagðir hafa sent fyrirspurn um kaupverð til Manchester United en eru einnig tilbúnir að skoða þann möguleika að fá hann að láni frá Rauðu djöflunum fyrir næsta tímabil. Það er hinsvegar spurning hvort United vilji lána Henderson til samkeppnisaðila sinna í Chelsea, en líklegra þykir að hann verði hjá Sheffield að minnsta kosti eitt ár í viðbót. Aðrir kostir sem Chelsea skoðar eru Nick Pope hjá Burnley og Andre Onana hjá Ajax.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.