Enski boltinn

Tímabilinu lokið hjá Henderson

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jordan Henderson fer af velli í leiknum gegn Brighton.
Jordan Henderson fer af velli í leiknum gegn Brighton. getty/Robin Jones/

Jordan Henderson, fyrirliði Englandsmeistara Liverpool, leikur ekki fleiri leiki á tímabilinu vegna hnémeiðsla.

Henderson fór meiddur af velli í 1-3 sigri Liverpool á Brighton í ensku úrvalsdeildinni á miðvikudaginn. Hann skoraði annað mark Rauða hersins í leiknum.

„Það var hræðilegt þegar hann meiddist og þurfti að yfirgefa völlinn,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, á blaðamannafundi í dag.

„Hann er algjört dýr og berst af öllum lífs og sálar kröftum. Hann er með háan sársaukaþröskuld. Við vissum að eitthvað hefði komið fyrir og þetta eyðilagði stemmninguna.“

Að sögn Klopps þarf Henderson ekki að fara í aðgerð og hann ætti að vera klár í slaginn áður en næsta tímabil hefst.

Meiðslin koma þó ekki í veg fyrir að Henderson lyfti Englandsmeistarabikarnum eftir síðasta heimaleik Liverpool á tímabilinu, gegn Chelsea 22. júlí.

Liverpool tekur á móti Burnley í 35. umferð ensku úrvalsdeildarinnar klukkan 14:00 á morgun.

Henderson lék 40 leiki með Liverpool í öllum keppnum á þessu tímabili og skoraði fjögur mörk.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.