Íslenski boltinn

Reiknar með að varnarleikurinn í deildinni fari að lagast

Ísak Hallmundarson skrifar

Óvenju mörg mörk hafa verið skoruð eftir fimm umferðir í Pepsi Max deild karla í sumar. Davíð Þór Viðarsson, sérfræðingur á Stöð 2 Sport, telur óhefðbundið undirbúningstímabil spila hvað stærstan þátt í því. 

„Ég held það sé blanda af nokkrum þáttum. Eins og einhverjir af þjálfurunum hafa talað um var undirbúningstímabilið mjög skrýtið. Liðin höfðu kannski ekki jafn mikinn tíma og venjulega til að stilla saman strengi. Það sýnir sig oft meira í varnarleik heldur en sóknarleik, þar sem sóknarleikur er meira einstaklingsframtak á meðan varnarleikurinn er meir liðsvinna. 

Annar hlutur er kannski að liðin eru ekki í eins góðu leikformi og þau væru eftir venjulegt undirbúningstímabil. Einstaklingar kannski ekki í jafngóðu líkamlegu formi og þeir væru annars, það eru kannski þær þrjár ástæður fyrir þessu,“ segir Davíð. 

Aðspurður hvenær hann haldi að ástandið færist í eðlilegra horf segist Davíð reikna með að það gerist á næstu vikum. 

„Þetta er auðvitað mjög skemmtilegt svona, fullt af mörkum og mikið að gerast, en ég myndi kannski ætla að eftir eina eða tvær umferðir verði liðin orðin það vel „drilluð“ að þau ættu að fara að geta fengið færri mörk á sig.“

Allt viðtalið má sjá í spilaranum efst í fréttinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.