Erlent

Fundu „pyntingar­klefa“ í gegnum há­leyni­legt sam­skipta­kerfi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mynd innan úr pyntingarklefanum.
Mynd innan úr pyntingarklefanum. Vísir/klefi

Lögregla í Hollandi handtók sex karlmenn eftir að „pyntingarklefi“ fannst í pakkhúsi í þorpinu Wouwse plantage, nærri belgísku landamærunum, í síðasta mánuði. Lögregla hafði þó uppi á klefanum áður en misindismönnum tókst að pynta nokkurn í honum.

Klefinn var útbúinn úr sjö hljóðeinangruðum gámum og í honum fundust ýmis pyntingartól: tannlæknastóll, handjárn, garðklippur, skurðhnífar og tangir – úrval verkfæra sem lögregla telur að hafi „líklega verið ætluð til að pynta fórnarlömb, eða í það minnsta til að beita þau þrýstingi“. Upptökur lögreglu úr klefanum má sjá hér fyrir neðan.

Lögregla komst á sporið í gegnum samskiptakerfið Encro Chat. Með samvinnu nokkurra löggæslustofnana í Evrópu tókst lögreglu nýlega að brjótast inn í umrætt kerfi og hlera dulkóðuð samskipti glæpamanna sem þar fóru fram. 

Átta hundruð hafa hingað til verið handtekin í tengslum við þessar aðgerðir, flestir í Bretlandi, og á þriðja tonn fíkniefna, tugi vopna og milljarðar í reiðufé verið gerðir upptækir. Vísir fjallaði ítarlega um málið í síðustu viku. 

Myndir úr pyntingarklefanum höfðu farið milli manna í samskiptakerfinu. Klefanum var þar lýst sem „meðferðarherbergi“, auk þess sem persónuupplýsingum um möguleg fórnarlömb til „meðferðar“ í klefanum var deilt. Líkt og áður segir hafði lögregla uppi á klefanum áður en tókst að pynta nokkurt fórnarlamb í honum. Þeir sem ratað höfðu á pyntingarlista glæpamannanna voru jafnframt varaðir við í tæka tíð og fóru í felur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×