Íslenski boltinn

2. deild: Fyrstu töpuðu stig Kórdrengjanna | Selfoss með frábæran endurkomusigur

Ísak Hallmundarson skrifar
Tokic skoraði sigurmark Selfyssinga í dag.
Tokic skoraði sigurmark Selfyssinga í dag. sunnlenska.is/guðmundur karl

Heil umferð fór fram í 2. deild karla í fótbolta í kvöld. 

Selfyssingar unnu Hauka 2-1 eftir að hafa verið manni færri í rúmar 60 mínútur og marki undir um tíma. 

Guðmundur Tyrfingsson, leikmaður Selfoss, fékk að líta á rauða spjaldið á 29. mínútu og á 49. mínútu kom Tómas Leó Ásgeirsson Haukum yfir í 1-0. Ingvi Rafn Óskarsson jafnaði fyrir Selfoss á 53. mínútu og manni færri á erfiðum útivelli náðu Selfyssingar að kreista fram sigurmark. Það gerði markahrókurinn Hrvoje Tokic á 73. mínútu. Virkilega sterkur sigur hjá Selfoss.

Selfoss er eftir sigurinn í þriðja sæti með níu stig, jafnmörg stig og Haukar, en Haukar eru með einu marki meira í plús og eru í öðru sæti á markatölu.

Kórdrengir töpuðu sínum fyrstu stigum í deildinni þegar þeir gerðu markalaust jafntefli við Kára á Akranesi. Kórdrengir enn á toppnum með tíu stig eftir fjórar umferðir og hafa enn ekki fengið á sig mark í deildinni. 

Þróttur Vogum vann sinn fyrsta leik á tímabilinu þegar þeir unnu óvæntan útisigur á nágrönnum sínum í Njarðvík. Lokatölur 0-1 fyrir Þrótti, Viktor Smári Segatta með markið á 45. mínútu.

Á Húsavík kom Fjarðabyggð til baka og náði í stig eftir að hafa verið 2-0 undir gegn Völsungi. Lokatölur 2-2 en þetta var fyrsta stig Húsvíkinga í sumar.

KF vann nágrannaslaginn fyrir norðan gegn Dalvík/Reyni en leikið var á heimavelli Dalvíkur. Dalvík skoraði fyrsta markið, en síðan komu fjögur í röð frá KF áður en Dalvíkingar minnkuðu muninn. Lokatölur 2-4 fyrir KF. 

ÍR gerði góða ferð suður með sjó þegar þeir sigruðu Víði frá Garði 3-0. ÍR-ingar komnir með sex stig líkt og Njarðvík og KF.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.