Erlent

Ákærð fyrir að reyna að siga lögreglunni á svartan mann

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Amy Cooper hefur nú verið ákærð fyrir að reyna að siga lögreglunni á Christian Cooper, sem er ekki skyldur henni.
Amy Cooper hefur nú verið ákærð fyrir að reyna að siga lögreglunni á Christian Cooper, sem er ekki skyldur henni. Skjáskot/Christian Cooper

Hvít kona sem reyndi að siga lögreglunni á svartan mann sem bað hana um að setja hundinn sinn í ól í New York í Bandaríkjunum, hefur verið ákærð fyrir athæfi sitt. Í myndbandi af atvikinu hótar hún manninum því að hringja á lögregluna og segja að svartur maður sé að ógna lífi hennar. Stuttu síðar sést hún gera nákvæmlega það.

Konan, sem heitir Amy Cooper, hefur beðist afsökunar og segist hafa brugðist of harkalega við því þegar Christian Cooper, sem er ekki skyldur henni, ræddi við hana. Nú hefur ákæruvaldið í Manhattan ákveðið að ákæra hana fyrir að hringja í lögregluna að ósekju. Atvikið átti sér stað 25. maí síðastliðinn, sama dag og George Floyd, sem var svartur, lést í Minneapolis þegar hvítur lögreglumaður að nafni Derek Chauvin, hélt hné sínu að hálsi hans í tæplega níu mínútur. Floyd er talinn hafa verið meðvitundarlaus í um þrjár af þessum mínútum.

Breska ríkisútvarpið greinir frá ákærunni á hendur Amy Cooper og hefur eftir Cyrus Vance, saksóknara á Manhattan, að það sé stefna ákæruvaldsins að taka hart á brotum sem þessum. Eins hvetji hann alla sem verða fórnarlamb falskra tilkynninga til lögreglunnar að leita réttar síns.

Brást reið við að vera beðin um að fylgja reglum

Christian Cooper var við fuglaskoðun í Central Park í New York í sérstökum hluta garðsins sem kallast Ramble. Þar er lausaganga hunda alfarið bönnuð vegna umfangsmikils dýralífs. Hann birti myndband af hluta samskipta hans við Amy Cooper þar sem hún segir meðal annars að hún ætli að segja lögreglunni að svartur maður sé að ógna lífi hennar.

Christian segir að einu samskipti þeirra fyrir það hafi verið á þá leið að hann hafi beðið hana um að setja ól á hundinn, því það sé gegn reglunum að hann gangi laus. Hún hafi sagt nei og þá hafi hann kallað hundinn til sín. Hann segir hana hafa brugðist reiða við því.

Hún hafi þó að lokum látið til leiðast og sett ól á hundinn. Eftir það hafi Christian þakkað henni fyrir og slökkt á upptökunni. Hann var farinn þegar lögregluþjóna bar að garði.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.