Erlent

„Ég segi þeim að svartur maður sé að ógna lífi mínu“

Samúel Karl Ólason skrifar
KataogÞG

Myndband af hvítri konu hóta því að siga lögreglunni á svartan mann sem bað hana um að setja ól á hund sinn í New York hefur valdið miklu fjaðrafoki undanfarinn sólarhring. Konan hefur verið sett í leyfi í vinnu sinni og gaf frá sér hund sinn vegna ásakana um dýraníð. Konan, sem heitir Amy Cooper, hefur beðist afsökunar og segist hafa brugðist of harkalega við því þegar Christian Cooper, sem er ekki skyldur henni, ræddi við hana.

Christian Cooper var við fuglaskoðun í Central Park í New York í sérstökum hluta garðsins sem kallast Ramble. Þar er lausaganga hunda alfarið bönnuð vegna umfangsmikils dýralífs. Hann birti í gær myndband af hluta samskipta hans við Amy Cooper þar sem hún segir meðal annars að hún ætli að segja lögreglunni að svartur maður sé að ógna lífi hennar.

Christian segir að einu samskipti þeirra fyrir það hafi verið á þá leið að hann hafi beðið hana um að setja ól á hundinn, því það sé gegn reglunum að hann gangi laus. Hún hafi sagt nei og þá hafi hann kallað hundinn til sín. Hann segir hana hafa brugðist reiða við því.

Málið hefur verið sett sérstaklega í samhengi við dauða Ahmaud Arbery, sem var skotinn til bana  þar sem hann var að skokka í Georgíu. Amy Cooper hefur verið sökuð um að vopnvæða lögregluna.

„Við lifum á tímum Ahmaud Arbery þar sem svartir menn eru skotnir niður vegna ályktana um svarta menn, svart fólk, og ég ætla ekki að taka þátt í því,“ sagði Christian Cooper við NBC News.

Í samtali við CNN segist Amy ekki vera rasisti og að ætlun hennar hafi ekki verið að meiða eða særa Christian á nokkurn hátt.

„Ég held ég hafi bara verið hrædd. Þegar þú ert ein í Ramble, veit maður ekki hvað getur ekki gerst. Það er ekki afsökun. Þetta er óverjanlegt,“ sagði hún.

Eftir að Amy Cooper setti ól á hundinn þakkaði Christian henni fyrir og slökkti á upptökunni. Hann var farinn þegar lögregluþjóna bar að garði.

Hún segist nú átta sig á því að það sé ekki á færi allra að líta til lögreglunnar varðandi vernd.

Amy hafði tekið að sér umræddan hund nokkrum dögum áður. Fjölmargir hafa sakað hana um dýraníð vegna þess hve hún þrengdi að hálsól hundsins á myndbandinu. Abandoned Angels Cocker Spaniel Rescue, samtökin sem hún fékk hundinn hjá, segja Amy hafa skilað honum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×