Enski boltinn

Hodgson hrifinn af því sem Lampard hefur gert með Chelsea

Ísak Hallmundarson skrifar
Félagarnir Roy og Frank á góðri stund.
Félagarnir Roy og Frank á góðri stund. getty/Sebastian Frej

Chelsea mætir Crystal Palace á Selhurst Park í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Crystal Palace siglir lygnan sjó í 14. sæti og er búið að bjarga sér frá falli á meðan Chelsea er í harðri Meistaradeildarbaráttu.

Frank Lampard tók við stjórnartaumunum hjá Chelsea síðasta sumar en þetta er aðeins hans annað ár sem aðalþjálfari fótboltaliðs. Hann hefur gefið nokkrum ungum leikmönnum stórt hlutverk þar sem liðið var í félagsskiptabanni síðasta sumar og er liðið sem stendur í 4. sæti. 

Frammistaða hans hefur heillað Roy Hodgson þjálfara Palace:

„Hann er að gera frábæra hluti og ég er ánægður að því hafi verið veitt eftirtekt. Félagið gerði einnig vel í að ráða ungan þjálfara og gefa honum tækifæri til að byggja upp unga leikmenn,“ sagði Hodgson.

„Hann stóð með þeim í stað þess að kvarta yfir því að hin liðin hafi eytt peningum í leikmenn, það var mjög vel gert hjá Frank. Við höfum séð leikmenn eins og Mason Mount, Ross Barkley og Reece James græða á því að þjálfarinn hefur trú á þeim.“

„Ég óska Frank til hamingju með það starf sem hann hefur unnið hingað til en ég vona að ég muni ekki þurfa að óska honum til hamingju á morgun,“ sagði Roy Hodgson að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×