Umfjöllun og viðtöl: Valur - Stjarnan 3-0 | Meistararnir komnir með sex stiga forskot

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hlín Eiríksdóttir kom Val á bragðið strax á 5. mínútu.
Hlín Eiríksdóttir kom Val á bragðið strax á 5. mínútu. vísir/vilhelm

Valur náði sex stiga forskoti á toppi Pepsi Max-deildar kvenna með 3-0 sigri á Stjörnunni á Origo-vellinum í kvöld.

Hlín Eiríksdóttir, Ída Marín Hermannsdóttir og Ásdís Karen Halldórsdóttir skoruðu mörk Íslandsmeistaranna sem hafa unnið alla fimm deildarleiki sína með markatölunni 17-2. Helstu keppinautar þeirra, Breiðablik, hafa leikið tveimur leikjum færra. Stjarnan, sem hefur tapað tveimur leikjum í röð, er í 6. sæti deildarinnar með sex stig.

Leikurinn var ekki nema fimm mínútna gamall þegar Hlín kom Val yfir. Hún fékk þá boltann inni í vítateignum frá Ásdísi og skoraði með góðu skoti.

Á 16. mínútu jók Ída María muninn í 2-0 þegar hún fylgdi eftir skoti Hallberu Gísladóttir sem fór í slána.

Meistararnir fengu góð færi til að skora fleiri mörk í fyrri hálfleik. Elín Metta Jensen átti t.a.m. skot í samskeytin eftir frábæran einleik.

Þótt Stjörnukonur ættu undir högg að sækja sýndu þær ágætis sóknartakta og fengu tvö úrvals færi í fyrri hálfleik. Birna Jóhannsdóttir skaut í hliðarnetið og Jana Sól Valdimarsdóttir skaut svo framhjá úr enn betra færi.

Seinni hálfleikurinn var mun rólegri en sá fyrri og frekar rislítill. Valskonur voru áfram með undirtökin en sköpuðu sér ekki mörg færi. Stjörnukonur ógnuðu að sama skapi lítið sem ekkert.

Eina mark seinni hálfleiks kom á 58. mínútu. Ásdís Karen skoraði þá með föstu skoti af stuttu færi sem Birta Guðlaugsdóttir, markvörður Stjörnunnar, réði ekki við. Mörkin urðu ekki fleiri og Valskonur fögnuðu fimmta sigri sínum í jafn mörgum leikjum í sumar.

Af hverju vann Valur?

Valskonur byrjuðu leikinn af miklum krafti og eftir sextán mínútur voru þær 2-0 yfir. Það var ekki fyrr en í þessari erfiðu stöðu sem Stjörnukonur fóru að láta að sér kveða. Gestirnir hefðu hæglega getað skorað tvö mörk í fyrri hálfleik en í þeim seinni var allt lokað. 

Heimakonur tóku fótinn af bensíngjöfinni í seinni hálfleik en sigurinn var aldrei nokkurn tímann í hættu.

Hverjar stóðu upp úr?

Stjörnukonur réðu minna en ekkert við Hlín sem fór mikinn á hægri kantinum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Hún var mjög góð í fyrra en virðist ætla að verða enn betri í ár. Hlín hefur styrkst mikið og stendur af sér allar tæklingar.

Elín Metta var einnig lífleg og síógnandi þótt henni hafi ekki tekist að skora og Ásdís skilaði marki, stoðsendingu og mjög góðu dagsverki. Þá kom hraði Guðnýjar Árnadóttur að góðum notum gegn Hildigunni Ýr Benediktsdóttir, hinum eldsnögga framherja Stjörnunnar. Ásgerður Stefanía Baldursdóttir var svo allsráðandi á miðjunni.

Birna og Jana Sól áttu ágæta spretti í liði Stjörnunnar. Þá hafði Birta nóg í markinu og átti fínan leik.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Stjörnunnar var ekki góður framan af leik og liðinu gekk sérstaklega illa að eiga við þær Elínu Mettu og Hlín. Sædís Rún Heiðarsdóttir fékk litla hjálp í vinstri bakverðinum og var oft skilin ein eftir á móti snöggum sóknarmönnum Vals.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga heimaleiki í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna á föstudaginn. Valur tekur á móti ÍBV og Stjarnan fær bikarmeistara Selfoss í heimsókn.

Næsti deildarleikur Stjörnunnar er gegn KR á heimavelli á þriðjudaginn 14. júlí. Degi síðar tekur Valur á móti Fylki.

Hallbera: Kannski búnar að sóla okkur of mikið

Hallbera mundar vinstri fótinn.vísir/hag

Hallbera Gísladóttir, fyrirliði Vals, var ekkert sérstaklega ánægð með spilamennsku Íslandsmeistaranna gegn Stjörnunni, þrátt fyrir öruggan 3-0 sigur.

„Ef ég á að vera hreinskilin fannst mér við ekkert vera upp á okkar besta,“ sagði Hallbera eftir leik.

„Við gáfum ekki mörg færi á okkur og skoruðum þrjú mörk þannig að maður getur ekki verið ósáttur. En ég hefði viljað að við hefðum spilað boltanum aðeins betur á milli okkar en það var einhver þreyta í okkur,“ sagði Hallbera í samtali við Vísi eftir leik.

Fyrri hálfleikurinn var mun fjörugri en sá seinni þar sem bæði lið virtust gefa eftir. Hallbera segir að það hafi ekki verið meðvituð ákvörðun að slaka á í seinni hálfleik.

„Við ætluðum bara að halda áfram. Við erum ekki þekktar fyrir að halda fengnum hlut þegar við komumst yfir. Við ætluðum okkur að setja fleiri mörk en það var einhver deyfð yfir okkur. Kannski erum við búnar að sóla okkur of mikið undanfarna daga,“ sagði Hallbera hlæjandi.

Eftir sigurinn í kvöld er Valur kominn með sex stiga forskot á toppi Pepsi Max-deildarinnar. Staðan blekkir þó því Breiðablik, helsti keppninautur Vals um Íslandsmeistaratitilinn, hefur aðeins leikið þrjá leiki en Valur fimm.

„Maður veit ekki hvaða áhrif þetta hefur. En ég held að liðin sem lentu í sóttkví taki bara tveggja vikna æfingatörn og þau koma ekkert til baka eftir að hafa slakað á. En það eru ákveðin þægindi að vera komnar í bílstjórasætið,“ sagði Hallbera að lokum.

Kristján: Þær læra í hvert sinni sem þær spila

Kristján var ekki sáttur með hvernig Stjarnan byrjaði leikinn.vísir/vilhelm

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, sagði að sínar stelpur hafi verið of lengi í gang gegn Íslandsmeisturum Vals í kvöld. Valskonur náðu forystunni á 5. mínútu og ellefu mínútum seinna var staðan orðin 2-0.

„Við vorum of lengi að svara þessu. Það var ekki fyrr en staðan var 2-0 sem við fórum að gera eitthvað á þeirra vallarhelmingi,“ sagði Kristján.

„Byrjunin var vond. Kannski var smá skrekkur í liðinu. En við komust svo inn í leikinn og í stöðunni 2-0 fengum við eitt mjög opið og tvö góð færi. Það var fínt og okkur fannst við vera að komast inn í þetta. En það gekk ekki.“

Valur skoraði þriðja mark sitt á 58. mínútu en annars gerðist fátt markvert í seinni hálfleiknum.

„Hann var allt í lagi. Við reyndum að færa okkur aðeins framar. Í heildina opnuðu þær okkur ekkert rosalega mikið og við getum tekið það út úr leiknum,“ sagði Kristján.

„Heilt yfir hlupum við vel og reyndum að spila út frá markverði. Það gekk oft á tíðum fínt en alltof margar sendingar rötuðu beint á andstæðing. Við þurfum bara að halda áfram að vinna þá vinnu sem við erum í með þessu liði. Þær læra í hvert sinni sem þær spila.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.