Veður

Hiti víðast hvar yfir meðallagi í júní

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Það var blíða á köflum í höfuðborginni í júní. Margir gripu gæsina og nutu útverunnar í góðra vina hópi.
Það var blíða á köflum í höfuðborginni í júní. Margir gripu gæsina og nutu útverunnar í góðra vina hópi. Vísir/Vilhelm

Meðalhiti í Reykjavík í júnímánuði var 10,2 stig. Er það 1,2 stigum yfir meðallagi sama mánaðar áranna 1961 til 1990, en 0,1 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti júnímánaðar á Akureyri var 11,21 stig, eða 2,0 stigum yfir meðallagi 1961 til 1990, en 1,1 stigi yfir meðallagi síðustu tíu ára.

Þetta kemur fram í yfirliti yfir tíðarfar síðastliðins mánaðar á vef Veðurstofunnar. Þar segir einnig að meðalhiti í Stykkishólmi hafi verið 9,4 stig í síðasta mánuði, og 10 stig á Höfn í Hornafirði.

Tafla sem sýnir meðalhita víða um land, og vik frá meðaltali tveggja tímabila.Veðurstofa Íslands/Skjáskot

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Mörk í Landi þann 28. júní, og var 24,2 stig. Lægsti hitinn var hins vegar -4,6 stig og mældist á Reykjum í Fnjóskadal.

Hvað meðalhita varðar var hann hæstur á Torfum í Eyjafirði, 11,1 stig. Lægstur var meðalhitinn á Gagnheiði, 3,5 stig. Lægsti meðalhiti á láglendi var hins vegar 6,4 stig í Seley.

Þá mældust sólskinsstundir í Reykjavík 167,4, en það er 6,1 stund yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri voru þær heldur fleiri, eða 222,4. Það er 45,8 stundum fleiri en að meðaltali. Þá var vindur á landsvísu 0,1 metra á sekúndu yfir meðallagi.

Úrkoma í Reykjavík mældist 46,9 mm, eða rétt undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri var úrkoman 10 prósent umfram meðaltal sömu ára. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 54,8 mm og 113,2 mm á Höfn í Hornafirði.

Hér má nálgast samantekt Veðurstofunnar um tíðarfar í júní.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.