Íslenski boltinn

Arnar Gunnlaugsson: Þetta er meðfæddur eiginleiki

Þór Símon skrifar
Arnar hafði ástæður til þess að brosa að leik loknum í kvöld.
Arnar hafði ástæður til þess að brosa að leik loknum í kvöld. Vísir/Vilhelm

Arnar Gunnlaugsson var mjög ánægður með 4-1 sigur sinna manna í Víking á FH í leik liðanna í Pepsi Max deildinni í kvöld.

„Gríðarlega ánægður. Við áttum mjög góðan leik í dag, vorum þéttir og sterkir, mjög heilsteypt frammistaða,“ sagði Arnar um leik sinna manna í kvöld.

„Ákváðum að pressa þá vel en breyttum aðeins uppstillingunni og held við höfum komið þeim á óvart. Vorum fljótir að finna góð svæði og refsuðum grimmilega. Hrikalega flottur sigur,“ sagði Arnar einnig.

„Þetta er meðfæddur eiginleiki. Hann er það góður í fótbolta að það kemur mér ekkert á óvart lengur. Sem gamall framherji finnst mér að þetta mark eigi bara að standa,“ sagði Arnar aðspurður út í þriðja mark Víkinga.

Þar var Óttar Magnús Karlsson fljótur að hugsa en boltastrákur Víkings kom boltanum til hans á mettíma. Skoraði Óttar Magnús úr þröngu færi en Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, var mjög ósáttur með dómara leiksins í því atviki.

„Töluðum um það fyrir leikinn að þetta væri „must win“ leikur til að gera okkur gildandi í þessu móti. Dræm stigasöfnun í fyrstu tveimur leikjunum en þeir voru ekkert hörmulegir. Vorum ekki eins miklir klaufar fyrir framan markið í dag. Nú er endurheimt mikilvæg svo menn séu klárir í Íslandsmeistara KR,“ sagði Arnar um frábæra frammistöðu sinna manna í kvöld.

„Við leggjum mikla áherslu á að boltastrákarnir viti að viljum halda góðu tempó í leik okkar. Þeir hafa lært eitthvað af Liverpool-markinu gegn Barcelona,“ sagði Arnar að lokum og glotti við tönn er hann var spurður út í frammistöðu boltastráka Víkings.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×