Íslenski boltinn

Spiluðu ekki vegna hættu á smiti: „Margt annað mikil­vægara í lífinu heldur en fót­bolta­leikir“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Þórsarar gerðu góða ferð austur í gær en voru án tveggja leikmanna.
Þórsarar gerðu góða ferð austur í gær en voru án tveggja leikmanna. Heimasíða Þórs/Páll Jóhannesson

Tveir leikmenn Þórs, Sigurður Marinó Kristjánsson og Jónas Björgvin Sigurbergsson, spiluðu ekki með liðinu í gær vegna kórónuveirunnar en þetta staðfesti Páll Viðar Gíslason, þjálfari liðsins, í samtali við Fótbolti.net eftir leikinn.

Þórsarar unnu 3-2 sigur á Leikni Fáskrúðsfirði í Lengjudeildinni í gær eftir að hafa lent 1-0 undir á fyrstu mínútu leiksins. Þórsarar því með sex stig eftir fyrstu tvær umferðirnar.

Eins og greint var frá um helgina greindist leikmaður Stjörnunnar í Pepsi Max-deild karla með kórónuveiruna en Leiknir spilaði við Stjörnuna í síðustu viku í Mjólkurbikarnum.

Páll segir að þar af leiðandi hafi tveir leikmenn liðsins ekki viljað spila leikinn gegn Leiknismönnum í gær af ótta við veiruna.

„Þeir vinna í heilbrigðisgeiranum þannig ég ber fulla virðingu fyrir ákvörðun þeirra, styð hana og mun gera það aftur ef þessi staða kemur upp aftur: að einhverjir leikmenn telji það ekki boðlegt að það sé spilaður fótboltaleikur því það er margt annað mikilvægara í lífinu heldur en fótboltaleikir. Við stöndum allir saman í þessu og styðjum allar ákvarðanir sem eru teknar í sambandi við þetta mál. Ég virði þeirra ákvörðun og ekkert vandamál," sagði Páll.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.