Enski boltinn

Segja hegðun stuðningsmanna sinna óásættanlega

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Stuðningsmenn Liverpool voru ekki með hugann við kórónuveirufaraldur í gær.
Stuðningsmenn Liverpool voru ekki með hugann við kórónuveirufaraldur í gær. vísir/Getty

Erfiðlega hefur gengið að fá stuðningsmenn Liverpool til að fagna Englandsmeistartitlinum í samræmi við fjöldatakmarkanir vegna kórónuveirufaraldurs og sendi félagið frá sér yfirlýsingu vegna þessa í dag.

Liverpool varð enskur meistari í fyrsta sinn í 30 ár þegar Man City beið lægri hlut fyrir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á fimmtudagskvöld. 

Hafa stuðningsmenn þessa næstsigursælasta félags enskrar knattspyrnu beðið óþreyjufullir eftir því að fagna deildarmeistaratitli undanfarna áratugi og þyrptust því borgarbúar út á stræti Liverpool borgar, bæði á fimmtudagskvöld sem og í gærkvöldi þar sem þúsundir söfnuðust saman við leikvang félagsins, Anfield.

Var það ekki vel séð af borgaryfirvöldum enda hefur Liverpool borg farið illa út úr kórónuveirufaraldrinum líkt og margar aðrar stórar borgir í Englandi.

Í sameiginlegri yfirlýsingu félagsins, borgar- og lögregluyfirvalda segir að enn sé verið að glíma við veirufaraldurinn og hegðun þeirra þúsunda sem söfnuðust saman í gær sé óásættanleg.

Í yfirlýsingunni segir jafnframt að þegar ástandið verði orðið betra með tilliti til kórónuveirunnar verði boðað til fagnaðar í borginni þar sem allir geti komið saman og fagnað Englandsmeistaratitlinum langþráða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×