Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍA - KR 1-2 | Meistararnir komu til baka á Akranesi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristinn Jónsson lagði upp sigurmark KR gegn ÍA.
Kristinn Jónsson lagði upp sigurmark KR gegn ÍA. vísir/bára

KR vann góðan sigur á ÍA, 1-2, á Norðurálsvellinum í 3. umferð Pepsi Max-deildar karla í kvöld.

Öll mörkin komu í upphafi seinni hálfleiks. Steinar Þorsteinsson kom ÍA yfir en Aron Bjarki Jósepsson jafnaði fyrir KR. Kristján Flóki Finnbogason skoraði svo sigurmark KR-inga eftir sendingu frá Kristni Jónssyni, besta manni vallarins.

KR er með sex stig í Pepsi Max-deildinni eftir þrjár umferðir en ÍA með þrjú stig eftir tvo tapleiki í röð.

KR byrjaði leikinn miklu betur. Íslandsmeistararnir voru fyrri til á alla bolta og settu heimamenn undir mikla pressu. Kristinn Jónsson var mjög áberandi á vinstri kantinum og skapaði ítrekað usla.

Á 11. mínútu varði Árni Snær Ólafsson, markvörður ÍA, tvisvar í röð, fyrst frá Óskari Erni Haukssyni og svo frá Pablo Punyed. Boltinn hrökk svo til Kristjáns Flóka sem skoraði en var dæmdur rangstæður.

Eftir um hálftíma kom mikill kraftur í Skagamenn sem fengu þrjú úrvals færi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Beitir Ólafsson varði vel frá Lars Marcus Johansson og Tryggva Hrafni Haraldssyni og Stefán Teitur Þórðarson skaut yfir úr algjöru dauðafæri.

Seinni hálfleikurinn hófst afar fjörlega. Á 47. mínútu varði Árni frá Kristjáni Flóka í fínu færi. Skagamenn fóru í sókn og Steinar kom þeim yfir með góðu skoti frá vítateigslínunni eftir undirbúning Viktors Jónssonar og Tryggva.

Markið kom á 48. mínútu en forysta heimamanna entist aðeins í fjórar mínútur. Eftir mark Steinars tóku KR-ingar öll völd á vellinum og fjórum mínútum síðar jafnaði Aron Bjarki eftir hornspyrnu.

Gestirnir héldu áfram að hamra járnið meðan það var heitt og á 61. mínútu komust þeir yfir. Eftir frábæra sókn upp vinstri kantinn sendi Kristinn fyrir á Kristján Flóka sem skoraði með skoti af stuttu færi.

Öfugt við KR-inga svöruðu Skagamenn ekki þegar þeir lentu undir og gestirnir áttu ekki í miklum vandræðum með að halda fengnum hlut það sem eftir var.

KR var líklegri til að bæta við marki en ÍA að jafna. Besta færið kom þegar sex mínútur voru eftir þegar KR-ingar fengu gefins vítaspyrnu. Pálmi Rafn Pálmason fór á punktinn en skaut framhjá. Fleiri urðu mörkin ekki og KR-ingar fögnuðu mikilvægum sigri.

Af hverju vann KR?

KR-ingar voru heilt yfir sterkari þótt Skagamenn hafi átt góða kafla. Þeir voru betri síðasta stundarfjórðung fyrri hálfleiks og fengu þá þrjú bestu færin sín sem ekki nýttust.

Eins og svo oft áður sótti KR meira upp vinstri kantinn þar sem Kristin og Óskar Örn voru áberandi. Sá fyrrnefndi lék lausum hala nánast allan leikinn og það kom lítið á óvart að hann skyldi búa sigurmarkið til.

Hverjir stóðu upp úr?

Kristinn var sem áður sagði besti leikmaður vallarins, átti ótal spretti upp vinstri kantinn og lagði sigurmarkið upp. Beitir átti tvær lykil markvörslur í fyrri hálfleik sem vógu þungt þegar uppi var staðið. Kristján Flóki var duglegur og skoraði sigurmarkið og Óskar Örn var ávallt hættulegur.

Steinar lék vel fyrir ÍA og skoraði einkar laglegt mark. Bjarki Steinn Bjarkason lék miklu betur en gegn FH í síðustu umferð en það dró af honum eins og hinum fremstu mönnum ÍA eftir því sem leið á leikinn. Stefán Teitur átti einnig fínan leik en fór illa með sannkallað dauðafæri í fyrri hálfleik.

Hvað gekk illa?

Skagamenn komu aldrei böndum á Kristin sem geystist hvað eftir annað óáreittur upp vinstri kantinn. Jón Gísli Eyland Gíslason fékk ekki mikla hjálp frá Viktori sem lék á hægri kantinum og spurning hvort Skagamenn hefðu getað brugðist fyrr við og sett varnarsinnaðri mann hægra megin til að loka á Kristin og Óskar Örn.

Hvað gerist næst?

Að því gefnu að mótahald raskist ekki enn frekar mætir ÍA Val á Hlíðarenda í 4. umferð Pepsi Max-deildarinnar á föstudaginn. Á laugardaginn fær KR bikarmeistara Víkings í heimsókn.

Jóhannes Karl: Fannst við spila miklu betri fótbolta

Jóhannesi Karli fannst ekki mikið til leikstíls KR koma.vísir/daníel

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var svekktur eftir tap sinna manna fyrir KR í kvöld. Hann hafði eitt og annað við dómgæsluna í leiknum að athuga og skaut á leikstíl KR-inga.

„Þetta er svekkjandi. Mér fannst við eiga að fá meira út úr leiknum, sérstaklega eftir fyrri hálfleikinn þar sem við sköpuðum okkur mjög góð færi til að skora. Beitir [Ólafsson] varði tvisvar vel og Stefán Teitur [Þórðarson] skaut yfir úr dauðafæri. Því miður datt þetta ekki með okkur í fyrri hálfleik,“ sagði Jóhannes Karl.

ÍA komst yfir í upphafi seinni hálfleiks með marki Steinars Þorsteinssonar. Það kveikti hins vegar í KR sem svaraði með tveimur mörkum.

„Þeir héldu sama leikplani allan leikinn og dældu boltanum hátt og langt á bakverðina hjá okkur. Við leystum það að stóru leyti. Þeir ýttu Pálma [Rafni Pálmasyni] mjög framarlega og vilja bara vera í svoleiðis fótbolta; að vinna seinni boltann og fá horn- og aukaspyrnur. Þeir gerðu það virkilega vel en mér fannst við spila miklu betri fótbolta,“ sagði Jóhannes Karl.

„Ég er að stóru leyti sáttur við sóknar- og varnarleikinn okkar en því miður eru KR-ingar líka með góða einstaklinga.“

Einar Ingi Jóhannsson dæmdi afar ódýra vítaspyrnu á ÍA undir lok leiks en hún fór í súginn. Í uppbótartíma vildu Skagamenn svo fá vítaspyrnu en þess í stað var dæmd rangstaða á leikmann liðsins.

„Það var bara enn eitt vafaatriðið þar sem mér fannst dómaratríóið vera rosalega sátt með að dæma í hag KR. Oft á tíðum fannst mér vera einbeittur vilji að dæma KR í hag,“ sagði Jóhannes Karl.

„Það voru fullt af vafaatriðum. Bjarki Steinn [Bjarkason] var negldur niður fyrir framan vítateig KR. Boltinn fór inn á miðjuna þar sem Sindri [Snær Magnússon] fór í tæklingu og fékk dæmt á sig brot og gult spjald. Öll vafaatriði duttu með KR.“

Rúnar: Gríðarlega stór sigur fyrir okkur

Strákarnir hans Rúnars eru komnir aftur á sigurbraut.vísir/bára

„Ég er ofboðslega ánægður. Það er erfitt að koma hingað upp á Skaga og þetta er gríðarlega stór sigur fyrir okkur. Við erum mjög sáttir við niðurstöðuna,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, eftir sigurinn á ÍA.

KR-ingar voru heilt yfir sterkari aðilinn í leiknum í kvöld. Þeir misstu þó tökin undir lok fyrri hálfleiks og hefðu hæglega getað lent undir á þeim kafla.

„Það var margt mjög gott. Við byrjuðum leikinn mjög vel og stjórnuðum honum fyrsta hálftímann. Síðasta korterið í fyrri hálfleik tóku Skagamenn yfir og fengu þrjú dauðafæri. Ég var ekki sáttur við spilamennskuna þá og það virtist draga af mönnum í góða veðrinu hérna. Beitir [Ólafsson] hélt okkur inni í leiknum þá,“ sagði Rúnar.

KR lenti undir í byrjun seinni hálfleiks en lagði ekki árar í bát og svaraði með tveimur mörkum.

„Við komum fínir út í seinni hálfleikinn, fengum á okkur mark en það gaf okkur smá spark í rassinn. Við spiluðum fínan fótbolta eftir það og hefðum hæglega getað unnið stærri sigur. Reynslan skilaði okkur þremur stigum,“ sagði Rúnar.

Hann segist ekki hafa haft miklar áhyggjur þegar Steinar Þorsteinsson kom ÍA yfir í upphafi seinni hálfleiks.

„Ég sagði við Stjána [Kristján Finnbogason] að þetta kæmi okkur í gang. Nú færum við á fullt og við gerðum það. Stundum þarftu smá spark í rassinn og seinni hálfleikurinn var nýbyrjaður og við að ná takti. Þannig ég hafði engar áhyggjur. Strákarnir eru reynslumiklir og héldu áfram,“ sagði Rúnar.

Hann vildi lítið tjá sig um ummæli Jóhannesar Karls Guðjónssonar um dómgæsluna í leiknum.

„Ég hef heyrt það áður. Ég hef ekkert út á það að setja. Það eru hans orð. Dómararnir leystu þennan leik mjög vel og dæmdu hann mjög vel. Ég held að það hafi hallað á hvorugt liðið þannig að ég var bara sáttur,“ sagði Rúnar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira