Íslenski boltinn

Óskar Hrafn: Holl áminning fyrir okkur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
óskar hrafn

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var ánægður eftir að Kópavogsliðið tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum Mjólkurbikars karla með 3-2 sigri á Keflavík.

„Þetta var mjög sætt. Ég neita því ekki,“ sagði Óskar í samtali við Vísi eftir leikinn á Kópavogsvelli í kvöld.

Blikar voru miklu sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu 1-0 að honum loknum. Þeir misstu svo tökin á leiknum í seinni hálfleik og lentu 1-2 undir. En tvö mörk frá Kristni Steindórssyni undir lokin tryggðu Breiðabliki sigurinn.

„Það er erfitt að segja hvað gerðist. Kannski greip um sig tilfinning að það þyrfti ekki að hafa fyrir hlutunum. En menn voru rækilega minntir á það að þannig virkar fótboltinn ekki. Þú færð ekkert fyrir það hvað þú gerðir þremur mínútum áður,“ sagði Óskar.

„Það þarf að vera kveikt á mönnum allan tímann, allar 90 mínúturnar. Þessi kafli í seinni hálfleik, sem var mjög slappur, er holl áminning um að það geta allir verið góðir ef hitt liðið leggur sig ekki fram.“

Þrátt fyrir að hafa lent í vandræðum áttu Blikar einn aukagír inni og náðu að knýja fram sigur.

„Menn fóru að hlaupa meira og gera þetta af aðeins meiri krafti. Þá skinu gæðin kannski í gegn. Það er fullt af góðum fótboltamönnum í Breiðabliki. Menn ákváðu að bretta upp ermarnar og keyra af stað,“ sagði Óskar að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×