Umfjöllun og viðtöl: Breiða­blik - Kefla­vík 3-2 | Kristinn hetja Blika

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristinn Steindórsson reyndist örlagavaldurinn í leik Breiðabliks og Keflavíkur.
Kristinn Steindórsson reyndist örlagavaldurinn í leik Breiðabliks og Keflavíkur. vísir/vilhelm

Kristinn Steindórsson var hetja Breiðabliks þegar liðið vann 3-2 sigur á Keflavík í 32-liða úrslitum Mjólkurbikars karla á Kópavogsvelli í kvöld.

Blikar voru 1-0 yfir í hálfleik en Keflvíkingar voru öflugir í seinni hálfleik, jöfnuðu og náðu svo forystunni, 1-2. Þannig var staðan þar til níu mínútur voru eftir.

Þá jafnaði Kristin fyrir Breiðablik og á 86. mínútu skoraði hann svo sigurmark heimamanna. Kristinn hefur skorað þrjú mörk í fyrstu tveimur leikjum sínum fyrir Blika síðan 2011.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, gerði sjö breytingar á byrjunarliðinu frá sigrinum á Fylki, 0-1, á sunnudaginn var. Meðal þeirra sem komu inn í byrjunarliðið voru Kwame Quee og Stefán Ingi Sigurðarson. 

Þeir bjuggu fyrsta mark leiksins til á 32. mínútu. Kwame sendi fyrir frá hægri á fjærstöng þar sem Stefán skallaði boltann í netið. Fyrsta mark þessa nítján ára framherja í fyrsta deildar- eða bikarleiknum fyrir Breiðablik.

Blikar voru miklu sterkari í fyrri hálfleik og fátt benti til annars en þeir færu nokkuð örugglega áfram. En Keflvíkingar sýndu lit og gott betur í seinni hálfleik. Þeir færðu sig framar á völlinn og settu Blika undir ágætis pressu.

Á 52. mínútu jafnaði vinstri bakvörðurinn Rúnar Þór Sigurgeirsson fyrir Keflavík með marki beint úr hornspyrnu. Arnar Sveinn Geirsson beygði sig en markvörðurinn Anton Ari Einarsson tók ekki boltann sem endaði í netinu.

Rúnar var aftur á ferðinni á 66. mínútu þegar hann sendi fyrir frá vinstri á Kian Williams sem skaust framhjá Antoni og kom Keflavík yfir.

Tíu mínútum síðar gerði Keflavík þrefalda skiptingu og við það riðlaðist leikur gestanna. Blikar færðu sig upp á skaftið og Kristinn jafnaði á 81. mínútu eftir undirbúning Gísla Eyjólfssonar.

Kristinn var ekki hættur og fimm mínútum síðar skoraði hann sigurmark Breiðabliks. Kwame fór þá upp hægri kantinn og sendi fyrir á Gísla sem lagði boltann á Kristin sem skoraði og tryggði Blikum farseðilinn í sextán liða úrslit Mjólkurbikarsins.

Kian Williams fagnar eftir að hafa komið Keflavík í 1-2.vísir/vilhelm

Af hverju vann Breiðablik?

Blikar voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en misstu svo tökin á leiknum í þeim seinni. Keflvíkingar voru gríðarlega kraftmiklir um miðbik seinni hálfleiks en eftir fjórar skiptingar á skömmum tíma datt botninn úr leik þeirra.

Blikar nýttu sér það, hertu tökin á ný og Kristinn kláraði svo dæmið með tveimur laglegum mörkum.

Hverjir stóðu upp úr?

Endurkoma Kristins í Breiðablik hefur gengið eins og í lygasögu. Eftir erfið ár hjá FH hefur hann öðlast nýtt líf í grænu treyjunni og þegar skilað þremur mörkum, öllum á Kópavogsvelli.

Kwame var mjög sprækur á hægri kantinum og gerir sterkt tilkall til sætis í byrjunarliði Breiðabliks. Þá átti Viktor Karl Einarsson gríðarlega góða innkomu og hleypti nýju lífi í leik Blika.

Davíð Snær Jóhannsson átti góðan leik á miðjunni hjá Keflavík og Rúnar skoraði eitt mark og lagði upp annað. 

Hvað gekk illa?

Eftir að hafa verið með öll völd á vellinum í fyrri hálfleik fór allur taktur úr leik Breiðabliks í þeim seinni. Gestirnir gerðu heimamönnum mjög erfitt fyrir og sýndu hvað í þá er spunnið. En Blikarnir áttu þó lokasvarið.

Keflvíkingar réðu lítið við Kwame, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem hann var hættulegastur Blika. Hann átti svo stóran þátt í sigurmarkinu.

Hvað gerist næst?

Blikar verða í pottinum þegar dregið verður í sextán liða úrslit Mjólkurbikarsins annað kvöld. Næsti leikur Breiðabliks í Pepsi Max-deildinni er gegn Fjölni á mánudaginn. Keflavík mætir Víkingi í Ólafsvík í 2. umferð Lengjudeildarinnar á sunnudaginn.

Óskar Hrafn: Menn ákváðu að bretta upp ermar

Óskar Hrafn ásamt aðstoðarmönnum sínum, Halldóri Árnasyni og Gunnleifi Gunnleifssyni.vísir/vilhelm

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var ánægður eftir að Kópavogsliðið tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum Mjólkurbikars karla með 3-2 sigri á Keflavík.

„Þetta var mjög sætt. Ég neita því ekki,“ sagði Óskar eftir leikinn í kvöld.

Blikar voru miklu sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu 1-0 að honum loknum. Þeir misstu svo tökin á leiknum í seinni hálfleik og lentu 1-2 undir. En tvö mörk frá Kristni Steindórssyni undir lokin tryggðu Breiðabliki sigurinn.

„Það er erfitt að segja hvað gerðist. Kannski greip um sig tilfinning að það þyrfti ekki að hafa fyrir hlutunum. En menn voru rækilega minntir á það að þannig virkar fótboltinn ekki. Þú færð ekkert fyrir það hvað þú gerðir þremur mínútum áður,“ sagði Óskar.

„Það þarf að vera kveikt á mönnum allan tímann, allar 90 mínúturnar. Þessi kafli í seinni hálfleik, sem var mjög slappur, er holl áminning um að það geta allir verið góðir ef hitt liðið leggur sig ekki fram.“

Þrátt fyrir að hafa lent í vandræðum áttu Blikar einn aukagír inni og náðu að knýja fram sigur.

„Menn fóru að hlaupa meira og gera þetta af aðeins meiri krafti. Þá skinu gæðin kannski í gegn. Það er fullt af góðum fótboltamönnum í Breiðabliki. Menn ákváðu að bretta upp ermar og keyra af stað,“ sagði Óskar að endingu.

Eysteinn: Ákváðum að láta vaða

Þjálfarar Keflavíkur, Eysteinn Húni Hauksson og Sigurður Ragnar Eyjólfsson.vísir/vilhelm

„Ég er svekktur með að tapa eins og ég held að flestir sem eru í þessu sporti séu yfirleitt,“ sagði Eysteinn Húni Hauksson, annar þjálfara Keflavíkur, eftir tapið fyrir Breiðabliki, 3-2, í kvöld.

Keflvíkingar voru öflugir í seinni hálfleik og náðu forystunni, 1-2. Botninn datt hins vegar úr leik liðsins eftir fjórar skiptingar á skömmum tíma.

„Þetta riðlaðist of mikið þegar leið á leikinn. Menn gáfu allt í leikinn og þurftu að fá skiptingu. Það er mjög erfitt fyrir fimm manns að koma inn á og halda stöðugleika gegn jafn góðu liði og Breiðabliki,“ sagði Eysteinn.

„En við höfðum fulla trú á því að okkar drengir myndu klára þennan leik eftir að við komumst 1-2 yfir en það gekk ekki.“

Keflvíkingar voru næstbestir á vellinum í fyrri hálfleik en í þeim seinni breyttist leikurinn og gestirnir unnu sig inn í hann.

„Það var engu að tapa fyrir okkur þannig að við ákváðum að breyta aðeins. Það er mjög erfitt að undirbúa sig fyrir leiki gegn Breiðabliki því þeir skipta oft um leikkerfi, jafnvel í miðjum leik. Við fórum aðeins betur yfir hlutverkaskiptinguna í pressunni og ákváðum að láta vaða,“ sagði Eysteinn.

„Við ákváðum að þora að fara aðeins framar og þá var ekki jafn mikið um eltingarleik, einn á móti einum. Það kom okkur inn í leikinn og vel það.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira