Íslenski boltinn

Níu leikmenn Leiknis áttu aldrei möguleika gegn KA | Sjáðu rauðu spjöldin | HK marði Magna á Grenivík

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
KA vann öruggan sigur í kvöld og er komið í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins.
KA vann öruggan sigur í kvöld og er komið í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins. Vísir/Bára

Tveimur leikjum er nú lokið í Mjólkurbikar karla af þeim átta sem fara fram í kvöld. KA valtaði yfir Leikni, HK marði Magna og þá þurfti að framlengja hjá Þór Akureyri og Reyni Sandgerði.

KA tók á móti Leikni frá Reykjavík á Greifavellinum á Akureyri. Heimamenn leika í Pepsi Max deildinni en gestirnir eru deild neðar og spila í Lengjudeildinni. Var búist við jöfnum leik enda KA ekki spáð góðu gengi í sumar á meðan Leiknir gæti daðrað við að komast upp í deild þeira bestu.

Annað var þó upp á teningnum í kvöld.

Nökkvi Þeyr Þórisson kom KA mönnum yfir strax á 5. mínútu og svo lauk leiknum í raun formlega eftir hálftíma. Áður en kom af því þurfti Hallgrímur Jónasson að fara af velli vegna meiðsla í liði KA og eru það slæmar fréttir fyrir heimamenn ef hann er frá til lengri tíma en liðið er nú þegar án varnarmannsins Hauks Heiðar Haukssonar.

Þegar hálftími var liðinn af leiknum rann Sólon Breki Leifsson er hann pressaði Kristijan Jajalo, markvörð KA, og endaði með því að fljúga inn í markvörðinn. Fyrir það fékk Sólon Breki sitt annað gula spjald í leiknum.

Brynjar Hlöðversson, fyrirliði Leiknis, var ekki sáttur með gang mála og lét Valdimar Pálsson, dómara leiksins, heyra nokkur vel valin orð. Fyrir það fékk Brynjar einnig sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Klippa: Tvö rauð spjöld á sömu mínútunni

Varnarmaðurinn stóri og stæðilegi með löngu innköstin, Mikkel Qvist, tvöfaldaði forystu KA fyrir hálfleik og staðan 2-0 í hálfleik. Gestirnir áttu aldrei möguleika í þeim síðari og skoruðu heimamenn fjögur mörk. Þau gerðu þeir Hallgrímur Mar Steingrímsson, Gunnar Örvar Stefánsson og Steinþór Freyr Þorsteinsson. Þá skoraði Nökkvi Þeyr sitt annað mark í leiknum.

Lokatölur 6-0 og KA komið í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins.

Á Grenivík voru HK-ingar í heimsókn en gestirnir unnu stórsigur á Íslandsmeisturum KR á dögunum í Pepsi Max deildinni. Heimamenn eru líkt og Leiknir í Lengjudeildinni.

Eitthvað hefur ferðalagið setið í gestunum en heimamenn komust yfir á 17. mínútu þökk sé marki Gauta Gautasonar og þannig var staðan allt fram á 68. mínútu leiksins. Þá jafnaði Birnir Snær Ingason metin og Atli Arnarson tryggði gestunum svo farseðilinn í 16-liða úrslit keppninnar með marki úr vítaspyrnu á 87. mínútu.

Lokatölur 2-1 HK í vil.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.