Íslenski boltinn

Knattspyrnudeild Þórs hefur loks tjáð sig um veðmáladerhúfuna | Segjast ekki hafa fengið borgað

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs, Jónas Björgvin Sigurbergsson og Alvaro Montejo mættu með þessa derhúfu í viðtal við Fótbolta.net á föstudaginn.
Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs, Jónas Björgvin Sigurbergsson og Alvaro Montejo mættu með þessa derhúfu í viðtal við Fótbolta.net á föstudaginn. Skjáskot/fótbolti.net

Knattspyrnudeild Þórs hefur loks tjáð sig um atvikið eftir leik liðsins gegn Grindavík í Lengjudeildinni þar sem leikmenn og þjálfarar auglýstu vísvitandi erlent veðmálafyrirtæki.

Eftir leik Þórs og Grindavíkur mættu tveir leikmenn ásamt þjálfara liðsins í viðtöl hjá vefmiðlinum Fótbolti.net. Voru þeir allir með derhúfu frá erlendu veðmálafyrirtæki. Voru þeir með að brjóta lög en veðmálafyrirtæki mega ekki auglýsa hér á landi. 

Í yfirlýsingu Þórsara - sem birt var á vefsíðu félagsins - kemur fram að knattspyrnudeild félagsins harmi atvikið sem átti sér stað þann 19. júní. Tekur félagið fulla ábyrgð og segist ekkert hafa fengið greitt fyrir atvikið. 

Þá segir að félagið muni vanda vinnubrögð sín í framtíðinni. 

Stjórn knattspyrnudeildar Þórs hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna atviks sem átti sér stað eftir leik Þórs og Grindavíkur. Yfirlýsinguna í heild má sjá hér að neðan.

„Stjórn knattspyrnudeildar Þórs harmar það atvik sem átti sér stað að loknum leik Þórs og Grindavíkur í 1. umferð Lengjudeildarinnar sl. föstudag 19. júní, þegar leikmenn og þjálfarar liðsins komu í viðtal eftir leik með húfu með vörumerki fyritækisinns Coolbet. Félagið harmar þetta atvik og tekur fulla ábyrgð í málinu.

Engin samningur hefur verið gerður við umrætt fyrirtæki né mun var gerður og Þór hefur ekki og mun ekki þiggja neinar greiðslur frá þeim.

Við viljum biðjast velvirðingar á þessum mistökum okkar og munum leggja okkur fram við að vanda vinnubrögð okkar í framtíðinni“ segir í yfirlýsingu frá knattspyrnudeild“.


Tengdar fréttir

Þórsarar auglýstu erlenda veðmálasíðu

Þjálfari og leikmenn Þórs á Akureyri auglýstu erlenda veðmálasíðu í viðtölum eftir að þeir unnu 2-1 sigur á Grindavík í fyrsta leik í 1. deildinni í fótbolta, sem í sumar heitir Lengjudeildin vegna samnings við Íslenskar getraunir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×