Íslenski boltinn

Lögbrot sem varðað getur hálfs árs fangelsi - Mál Þórsara til aganefndar

Sindri Sverrisson skrifar
Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs, Jónas Björgvin Sigurbergsson og Alvaro Montejo mættu með þessa derhúfu í viðtal við Fótbolta.net á föstudaginn.
Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs, Jónas Björgvin Sigurbergsson og Alvaro Montejo mættu með þessa derhúfu í viðtal við Fótbolta.net á föstudaginn. Skjáskot/fótbolti.net

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, hefur vísað til aga- og úskurðarnefndar máli Þórsara á Akureyri sem auglýstu erlent veðmálafyrirtæki í viðtölum eftir leik í Lengjudeild karla síðastliðinn föstudag.

Tveir leikmanna Þórs og þjálfari liðsins mættu með derhúfu merkta erlendu veðmálafyrirtæki í viðtöl við Fótbolta.net eftir leikinn. Tilgangurinn er ekki ljós en forráðamenn Þórs hafa ekki svarað símtölum blaðamanns þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Framkvæmdastjóra KSÍ er heimilt að vísa málum til aga- og úrskurðarnefndar sem „skaðað geta ímynd knattspyrnunnar“ og á þeim forsendum vísaði Klara málinu til nefndarinnar. Það er svo í höndum nefndarinnar að ákvarða hvort refsa beri Þórsurum og er heimild til sektar upp á 50-100 þúsund krónur. Einnig er heimild til refsingar með leikbanni.

Málið gæti versnað enn fyrir Þórsara verði þeir fundnir sekir um lögbrot. Samkvæmt íslenskum lögum varðar það sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef maður „af ásetningi eða stórfelldu gáleysi auglýsir, kynnir eða miðlar hvers konar upplýsingum um happdrætti sem ekki hefur verið veitt leyfi fyrir samkvæmt lögum þessum eða uppfyllir ekki skilyrði laganna, óháð því hvort starfsemi þess er rekin hérlendis eða erlendis.“


Tengdar fréttir

ÍTF fordæmir hegðun Þórsara - Málið til skoðunar hjá KSÍ

„Mér finnst þetta fyrst og fremst óheppilegt að öllu leyti, því þarna er bara verið að brjóta landslög,“ segir Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri Íslensks toppfótbolta, um það að Þórsarar skyldu auglýsa erlenda veðmálasíðu eftir fyrsta leik sinn í Lengjudeildinni í sumar.

Þórsarar auglýstu erlenda veðmálasíðu

Þjálfari og leikmenn Þórs á Akureyri auglýstu erlenda veðmálasíðu í viðtölum eftir að þeir unnu 2-1 sigur á Grindavík í fyrsta leik í 1. deildinni í fótbolta, sem í sumar heitir Lengjudeildin vegna samnings við Íslenskar getraunir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×