Harry Maguire og David de Gea litu ansi illa út í fyrsta markinu sem Manchester United fékk á sig eftir hléið langa vegna kórónuveirufaraldurinn. Roy Keane átti að minnsta kosti vart aukatekið orð yfir frammistöðu þeirra.
United lenti 1-0 undir gegn Tottenham í fyrri hálfleik þegar Steven Bergwijn skoraði, en leikurinn stendur nú yfir. Keane tjáði sig um markið í hálfleik í útsendingu Sky, en Bergwijn skoraði eftir að hafa hlaupið auðveldlega framhjá Maguire og þrumað boltanum í De Gea og inn.
„Ég myndi ekki hleypa þeim upp í rútuna eftir leik. Þeir geta bara tekið leigubíl heim til Manchester,“ sagði Keane.
„Ég er í sjokki yfir þessu marki. Ég er búinn að horfa á mikið af fótbolta í gegnum árin. Ég er að tryllast við að horfa á þennan leik. Ég á ekki til orð yfir Maguire,“ sagði Keane, sem var afar sigursæll sem fyrirliði United á sínum tíma. Hann er vægast sagt ekki hrifinn af De Gea:
„Ég er orðinn dauðþreyttur á þessum markverði. Ég hefði slegist við hann í hálfleik. Látið hnefana tala. Þetta er til skammar. Hann er ofmetnasti markmaðurinn,“ sagði Keane.