Erlent

That '70s Show stjarna á­kærð fyrir þrjár nauðganir

Sylvía Hall skrifar
Danny Masterson er þekktastur fyrir hlutverk sitt í That '70s Show.
Danny Masterson er þekktastur fyrir hlutverk sitt í That '70s Show. Vísir/Getty

Leikarinn Danny Masterson hefur verið ákærður fyrir þrjár nauðganir sem áttu sér stað á árunum 2001 til 2003. Konurnar voru allar á þrítugsaldri; tvær 23 ára og ein 28 ára.

Masterson á yfir höfði sér 45 ára fangelsi verði hann fundinn sekur, en hann er 44 ára gamall. Hann var handtekinn á miðvikudagsmorgun en sleppt gegn 3,3 milljón dala tryggingu, sem samsvarar um tæplega 450 milljónum íslenskra króna.

Rannsókn á brotum Masterson hófst árið 2016 og var leikarinn rekinn úr þáttunum The Ranch ári seinna. Framleiðendur létu skrifa hann út úr þáttunum en Masterson fordæmdi þá ákvörðun og sagðist vera vonsvikinn.

Tvö önnur mál voru til rannsóknar en ákæra var ekki gefin út vegna skorts á sönnunargögnum annars vegar og fyrningar hins vegar. Þá kærðu fjórar konur Masterson og Vísindakirkjuna í ágúst árið 2019 fyrir áreiti, en Masterson er meðlimur kirkjunnar.

Lögmaður Masterson hefur gefið út yfirlýsingu þar sem hann segir skjólstæðing sinn vera saklausan. Hann sé sannfærður að leikarinn verði sýknaður þegar þeir fá tækifæri til þess að leggja fram sönnunargögn og taka skýrslur af vitnum.

„Augljóslega eru herra Masterson og eiginkona hans í algjöru áfalli, sérstaklega í ljósi þess að þessar tuttugu ára gömlu ásakanir eru að leiða til ákæru. Þau og þeirra fjölskylda hugga sig við það að sannleikurinn muni koma í ljós. Fólk sem þekkir herra Masterson vita hvaða mann hann hefur að geyma og að þessar ásakanir séu rangar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×