Erlent

Pólland segist hafa ráðist óvart inn í Tékkland

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Pólskur hermaður sést hér á landamærum Póllands og Tékklands.
Pólskur hermaður sést hér á landamærum Póllands og Tékklands. Krzysztof Zatycki/Getty

Pólsk stjórnvöld hafa viðurkennt að hermenn á þeirra vegum hafi í síðasta mánuði tekið sér stöðu innan landamæra Tékklands, og þannig „ráðist óvart“ inn í landið. Varnarmálaráðuneyti Póllands segir að um mistök hafi verið að ræða.

Pólskir hermenn sem komið var fyrir á landamærum ríkjanna til að sinna landamæravörslu og draga þannig úr hættunni á útbreiðslu kórónuveirunnar tóku sér stöðu við kapellu, Tékklandsmegin við landamærin, í síðasta mánuði. Þar héldu þeir til í einhverja daga og meinuðu meðal annars tékkneskum ríkisborgurum að fara að kapellunni.

Tékknesk yfirvöld höfðu samband við þau pólsku þegar þau fengu veður af málinu og hermennirnir færðu sig. Pólsk yfirvöld segja um misskilning að ræða, en fulltrúar utanríkisráðuneytis Tékklands segjast enn ekki hafa fengið opinbera skýringu á málinu.

BBC fjallar um málið, en fyrst var greint frá því í tékkneska staðarblaðinu Denik.

Þar segir að hermennirnir hafi fyrst tekið sér stöðu Póllandsmegin við landamærin. Þeir hafi hins vegar ákveðið að fara yfir lítinn læk sem landamæri ríkjanna tveggja liggja við, og taka sér frekar stöðu við kapellu innan tékknesku landamæranna. Ekki liggur fyrir hvers vegna þeir ákváðu að gera það, né hversu lengi nákvæmlega „innrásin“ varði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×