Erlent

Lögregla og mótmælendur tókust á í London

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mótmælandi sem mótmælti mótmælum Black Lives Matter hreyfingarinnar er hér í átökum við lögreglu.
Mótmælandi sem mótmælti mótmælum Black Lives Matter hreyfingarinnar er hér í átökum við lögreglu. Jonathan Brady/AP

Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu í bresku höfuðborginni London í dag. Mótmælendurnir sem um ræðir söfnuðust saman í miðborginni, og sögðust vera að vernda styttur á svæðinu frá and-rasískum aðgerðasinnum.

Upp á síðkastið hefur borið á því að styttur af umdeildum mönnum hafi verið felldar og skemmdar. Sem dæmi má nefna að mótmælendur í Bristol í Englandi tóku styttu af þrælasalanum Edward Colston og hentu í höfn borgarinnar.

Í myndbandi sem breska ríkisútvarpið BBC birtir af mótmælunum sést þar sem mótmælendur veitast ítrekað að lögreglu og kasta flöskum í átt að lögreglumönnum.

Segja öfgahópa hafa komið til London sérstaklega til að mótmæla

Samkvæmt BBC hafa ýmsir hópar flykkst víða að til London, í þeim meinta tilgangi að vernda þær styttur sem þar er að finna, og koma í veg fyrir að þær verði teknar niður. Þar á meðal eru hópar á hægri jaðar stjórnmálanna.

Greint er frá því að hundruð mótmælenda, aðallega hvítir karlmenn, hafi safnast saman í kringum Cenotaph-minnismerkið um síðari heimsstyrjöldina og styttu af Winston Churchill á Parliament-torgi. Þá eru margir mótmælendanna sagðir hafa lyft upp höndum sínum og kyrjað „England,“ líkt og þeir væru staddir á íþróttakappleik.

Reyndu að mæta and-rasískum mótmælendum

Lögregla reyndi eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að umræddir mótmælendur kæmust í Hyde-garðinn í London, en þar fóru fram friðsamleg mótmæli gegn kynþáttafordómum.

Black Lives Matter-hreyfingin hafði fyrir fram brýnt fyrir fólki að mótmæla ekki nú um helgina, þar sem hætta væri á að til átaka við öfgahægrihópa kæmi.

Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, hefur fordæmt ofbeldið sem átti sér stað í dag og lýst því sem „óásættanlegri glæpamennsku.“

„Allir sem beita ofbeldi eða fremja skemmdarverk mega eiga von á því að lögin taki á þeim af fullum þunga. Ofbeldi í garð lögreglumannanna okkar verður ekki liðið,“ skrifaði hún og bætti við tilmælum um að fólk héldi sig heima til þess að draga úr áhættu á útbreiðslu kórónuveirunnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.