Erlent

Mót­mælin halda á­fram í Líbanon

Atli Ísleifsson skrifar
Mótmælendur komu meðal annars upp vegartálmum víðs vegar um höfuðborgina Beirút í nótt.
Mótmælendur komu meðal annars upp vegartálmum víðs vegar um höfuðborgina Beirút í nótt. Getty

Aðra nóttina í röð héldu mótmælaaðgerðir áfram í Líbanon þar sem mörg hundruð komu saman á götum borga víðs vegar um landið. Mótmælin beinast að stjórnvöldum í landinu og hvernig þau hafa tekið á efnahagsmálum.

Gengi gjaldmiðils landsins hefur rýrnað um 70 prósent síðan í október þegar mótmælaaldan í landinu hófst, en staða efnahagsmála í Líbanon hefur versnað enn frekar vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Mótmælendur köstuðu í nótt steinum og öðru lauslegu að lögreglu í höfuðborginni Beirút og hafnarborginni Trípolí, auk þess að beina að þeim flugeldum. Lögregla beitti táragasi og skaut gúmmíkúlum að mótmælendum.

Hrap gengis líbanska pundsins stöðvaðist nokkuð í gær eftir að Líbanonstjórn greindi frá því að seðlabanki landsins myndi dæla Bandaríkjadölum inn í hagkerfið til að stöðva gengishrunið. Sú aðgerð líbanska seðlabankans fer í framkvæmd eftir helgi.

Líbanir hafa margir þurft að fylgjast með sparnaði sínum fuðra upp síðustu mánuði og þá er rúmlega þriðjungur landsmanna án atvinnu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×