Íslenski boltinn

Heimir hefur „fengið pillur frá KR-ingum“ eftir að hafa tekið við Val

Anton Ingi Leifsson skrifar
Heimir Guðjónsson tók við Val í haust eftir tvö ár í Færeyjum.
Heimir Guðjónsson tók við Val í haust eftir tvö ár í Færeyjum. vísir/s2s

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, segist hafa fengið skot á sig frá KR-vinum sínum eftir að hann tók við liði Vals en Heimir er fæddur og uppalinn vestur í bæ.

Heimir var í viðtali hjá Hjörvari Hafliðasyni í hlaðvarpsþættinum Dr. Football en þar fór Heimi bæði yfir veturinn sem er að baki sem og tímabilið sem framundan er.

Þegar hann var spurður út í það, hvort að það væri undarlegt fyrir hann að vera þjálfari hjá mestu erkifjendum KR svaraði hann:

„Þetta er bara vinnan þín. Þú ert með einhvern mesta KR-ing sem sögur fara af, Willum Þór Þórsson. Hann fór úr KR í Val og þjálfaði þar við góðan orðstír í fjögur tímabil,“ sagði Heimir í viðtalinu.

„Þetta er bara vinnan manns og maður þarf að leggja allt annað til hliðar en auðvitað á ég góða vini sem eru KR-ingar og þeir hafa sent mér eina og eina pillu. Ég ætla ekki að ljúga mig út úr því,“ bætti Heimir við léttur.

Heimir mætir einmitt uppeldisfélaginu í opnunarleik Pepsi Max-deildarinnar sem hefst annað kvöld en flautað verður til leiks klukkan 20.00 á Origo-vellinum. Upphitun Stöðvar 2 Sports hefst 19.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×