Íslenski boltinn

Bologna kaupir Ara en lánar hann til HK

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ari Sigurpálsson tekur slaginn með HK í sumar.
Ari Sigurpálsson tekur slaginn með HK í sumar. mynd/hk

Ítalska úrvalsdeildarfélagið Bologna hefur keypt Ara Sigurpálsson frá HK. Hann var lánaður til Bologna með kauprétti síðasta haust og ítalska félagið hefur nú gengið frá kaupunum á honum.

Ari verður lánaður strax aftur til HK og mun spila með liðinu í sumar. Hann lék tvo leiki í Pepsi Max-deild karla á síðasta tímabili. Hann er yngsti leikmaður HK í efstu deild.

Í vetur lék Ari með U-17 ára liði Bologna. Hann skoraði fjögur mörk og lagði upp átta í tólf leikjum.

Ari, sem hefur leikið fjórtán leiki fyrir yngri landslið Íslands, er annar tveggja Íslendinga sem eru á mála hjá Bologna. Andri Fannar Baldursson lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið félagsins í febrúar.

HK mætir FH í fyrsta leik sínum í Pepsi Max-deildinni klukkan 18:00 á sunnudaginn. HK var spáð 10. sæti í árlegri spá fyrirliða, þjálfara og formanna liðanna í deildinni sem var opinberuð í dag.

Á síðasta tímabili endaði HK í 9. sæti Pepsi Max-deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×