Íslenski boltinn

Tugum milljóna veðjað á 1. umferð bikarsins

Sindri Sverrisson skrifar
Leikur Álftaness og Fram var meðal þeirra sem veðjað var á um helgina en þar fóru Framarar með sigur af hólmi.
Leikur Álftaness og Fram var meðal þeirra sem veðjað var á um helgina en þar fóru Framarar með sigur af hólmi. VÍSIR/HAG

Getspakir, og minna getspakir, fótboltaáhugamenn veðjuðu samtals fyrir að minnsta kosti um 20 milljónir króna á leiki í 1. umferð Mjólkurbikarsins í fótbolta.

Veðmálasíðan Coolbet greinir frá því á Twitter að heildarvelta vegna bikarleikjanna í 1. umferð, þegar einum leik var ólokið, hafi verið 18.132.000 krónur. Þá eru ótaldar þær krónur sem veðjað hefur verið á leikina á öðrum erlendum veðmálasíðum á borð við Bwin og William Hill, og ljóst að minnsta kosti að um tugi milljóna er að ræða.

Hjá Coolbet var mestu veðjað á leik Selfoss og Snæfells, þar sem í boði var bæði að veðja á úrslit sem og markafjölda í leiknum og úrslit með forgjöf. Tipparar græddu hins vegar samtals mest á leik Mídasar og KM.

Kallað hefur verið eftir því að erlend veðmálafyrirtæki, sem hagnast á leikjum íslenskra liða án þess að króna skili sér í íslenska íþróttahagkerfið, fái að auglýsa á Íslandi. Ljóst er að fyrirtækin hafa mikinn áhuga á því en Jóhann Már Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Vals, sagði í Sportinu í dag í apríl að tvö veðmálafyrirtæki hefðu til að mynda viljað kaupa nafnið á heimavelli Vals fyrir nokkrum árum.

Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri Íslensks toppfótbolta, sagði við Vísi í síðasta mánuði að samtökin myndu fagna því að geta sótt styrki til erlendra veðmálafyrirtækja en minnti á að Íslensk getspá skilaði umtalsverðum fjármunum til íslenskra íþróttafélaga.

„Þessi umræða hefur komið upp áður en það er regluverk á Íslandi sem tekur á þessum hlutum. Öll félög á Íslandi fá umtalsverða fjármuni frá Íslenskri getspá en ef þessi fyrirtæki mættu auglýsa myndi það bara fjölga þeim fyrirtækjum sem félög geta sótt sér styrki til. Þetta er í öllum nágrannalöndum, þar eru þessi fyrirtæki mjög áberandi styrkaraðilar íþróttafélaga,“ sagði Birgir.


Tengdar fréttir

Veðmálafyrirtæki vildu kaupa nafnið á Valsvellinum

Þegar Valur var að leita að styrktaraðila til að kaupa nafnið á heimavelli félagsins bönkuðu tvö veðmálafyrirtæki upp á. Slíkum fyrirtækjum er óheimilt að auglýsa á íþróttaviðburðum á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×