Enski boltinn

Borgarstjóri Liverpool skipti um skoðun og vonar að grannaslagurinn fari fram á Goodison

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi og Adam Lallana í baráttunni í bikarleik fyrr á tímabilinu.
Gylfi og Adam Lallana í baráttunni í bikarleik fyrr á tímabilinu. vísir/getty

Joe Anderson, borgarstjórinn í Liverpool, vonast nú eftir því að leikur Everton og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni síðar í mánuðinum fari fram á Goodison Park en ekki á hlutlausum velli.

Anderson hafði áður greint frá þeirri skoðun sinni að hann vonaðist til þess leikir liðanna færi fram á hlutlausum velli, þar á meðal að grannaslagurinn færi fram utan borgarmarkanna því Liverpool á möguleika á því að tryggja sér enska titilinn með sigri á grönnunum. Líkur eru þar af leiðandi á að stuðningsmenn liðsins myndu safnast saman fyrir utan völlinn.

Leikurinn fer fram 21. júní en leikurinn verður fyrsti leikur beggja liða eftir að allt var sett á pásu vegna kórónuveirunnar fyrir þremur mánuðum síðan.

Anderson hafði áhyggjur af því að stuðningsmenn liðanna myndu ekki virða boð yfirvalda um að safnast ekki saman fyrir utan völlinn, sér í lagi ef Liverpool tryggir sér titilinn en nú hefur hann breytt skoðun sinni.

„Við erum á betri stað en fyrir fjórum vikum og okkur hefur tekist að greina frá því af hverju það er mikilvægt að enginn safnist saman fyrir utan völlinn eða nálægt honum,“ sagði hann í samtali við The Athletic.

„Við höfum fengið tækifæri til að tala við stuðningsmennina og félögin hafa gert sitt í að koma skilaboðunum áleiðis. Bæði félög hafa gert það skýrt og Jurgen Klopp hefur einnig gert það.“

„Svo ég hef ekkert á móti því að leikirnir fari fram á heimavöllum liðanna, bæði grannaslagurinn á Goodison og leikir Liverpool á Anfield,“ bætti Anderson við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×