Erlent

Rifu niður styttu af hershöfðingja Suðurríkjanna

Andri Eysteinsson skrifar
Styttan sem um ræðir af Wickham hershöfðingja.
Styttan sem um ræðir af Wickham hershöfðingja. Vísir/AP

Lítill hópur mótmælanda reif niður styttu af suðurríkjaleiðtoganum Williams Carter Wickham hershöfðingja sem stóð í borginni Richmond í Virginíu.

Styttan var rifin niður af stalli sínum eftir að friðsamleg mótmæli höfðu farið fram í borginni á laugardaginn. Politico segir enn óljóst hvort miklar skemmdir hefðu verið gerðar á styttunni.

Band var bundið um styttuna sem hefur staðið í Monroe-garðinum í Richmond frá árinu 1891, var hún dregin niður, máluð rauð og var að lokum migið á styttuna.

Styttur af leiðtogum Suðurríkjanna hafa verið mikið í umræðunni á síðustu árum og þykir mörgum það óviðeigandi að þær skuli fá að standa óáreittar. Sérstaklega var umræðan mikil eftir skotárás fjöldamorðingjans Dylann Roof í Suður-Karólínu 2015 og mótmæla hvítra þjóðernissinna í borginni Charlottesville í Virginíu 2017.

Árið 2017 kölluðu afkomendur Wickham hershöfðingja eftir því að styttan yrði fjarlægð og í síðustu viku tilkynnti Ralph Northam, ríkisstjóri Virginíu að styttan af hershöfðingjanum Robert E. Lee yrði fjarlægð eins fljótt og unnt væri en hún er einn fimm suðurríkjaminnisvarða á sama blettinum í borginni.

Þar hafa mótmæli gegn kynþáttahatri og lögregluofbeldi í kjölfarið á morðinu á George Floyd í Minneapolis helst geisað í borginni. Hafa stytturnar verið nýttar af mótmælendum til þess að skrifa slagorð sín um að binda enda á kynþáttahatri og lögregluofbeldi.

Styttan af Lee er eina styttan sem er í eigu ríkisins en aðrar fjórar styttur tilheyra Richmond borg. Borgarstjóri Richmond, Levar Stoney hefur þegar tilkynnt um áform sín um að láta fjarlæga stytturnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×