Erlent

Styrkur koltvísýrings í nýjum hæðum þrátt fyrir samdrátt vegna faraldursins

Kjartan Kjartansson skrifar
Þrátt fyrir umtalsverðan samdrátt í faraldrinum halda menn áfram að losa mikið magn kolefnis út í lofthjúp jarðar þar sem það veldur hlýnun við yfirborðið. Styrkurinn koltvísýrings hefur ekki verið hærri í sögu mannkynsins.
Þrátt fyrir umtalsverðan samdrátt í faraldrinum halda menn áfram að losa mikið magn kolefnis út í lofthjúp jarðar þar sem það veldur hlýnun við yfirborðið. Styrkurinn koltvísýrings hefur ekki verið hærri í sögu mannkynsins. Vísir/EPA

Aldrei hefur styrkur koltvísýrings í andrúmslofti mælst hærri í sögu mannkynsins en í síðasta mánuði þrátt fyrir að dregið hafi umtalsvert úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna kórónuveiruheimsfaraldursins. Líklegt er talið að styrkur koltvísýrings hafi ekki verið meiri í um þrjár milljónir ára.

Flug- og bílaumferð hefur dregist verulega saman um allan heim vegna kórónuveirufaraldursins og aðgerða til þess að hefta útbreiðslu hans. Áætlað hefur verið losun gróðurhúsalofttegunda hafi hrunið um allt að sautján prósent á milli ára í apríl þegar mest lét. Horfur eru á 4-7% samdrætti í losun í ár.

Þessi samdráttur kom þó ekki í veg fyrir að styrkur koltvísýrings í lofthjúpi jarðar næði nýjum hæðum í maí. Hann mældist að meðaltali meira en 417 hlutar af milljón (ppm) á Mauna Loa-athuganastöðinni á Havaí og hækkaði úr 414,7 frá því í fyrra.

Sjá einnig: Samdráttur í losun í faraldrinum sagður fordæmalaus

Styrkur koltvísýrings er í hámarki eftir veturinn í maí áður en tré og gróður á norðurhveli byrjar að draga hann í sig að sumri. Hann hefur aldrei mælst hærri með beinum mælingum og veðurvitni sem vísindamenn nota til þess að rannsaka fornloftslag benda til þess að ekki hafi verið meira af gróðurhúsalofttegundinni í andrúmsloftinu í þrjár milljónir ára. Washington Post segir að síðast þegar styrkurinn var svo hár hafi hnattrænn meðalhiti verið mun hærri en nú og yfirborð sjávar staðið tugum metra hærra.

Þrátt fyrir að dregið hafi úr losun í faraldrinum dæla menn enn tugum milljarða tonna af koltvísýringi út í andrúmsloftið sem bætist ofan á það sem hefur safnast upp í lofthjúpnum um áratuga skeið. Í tilkynningu Scripps-haffræðistofnunarinnar um mælingarnar kemur fram að til þess að það hægist mælanlega á vaxandi styrk koltvísýrings þurfi menn að draga úr losun sinni um 20-30% í sex til tólf mánuði.

Koltvísýringur, sem veldur hlýnun við yfirborð jarðar, safnast saman í lofthjúpnum og getur verið þar í allt að þúsund ár. Því mun styrkur hans halda áfram að aukast þar til menn hætta allri losun. Hann mun ekki dragast saman fyrr en að vistkerfi jarðar og kolefnisbinding manna fjarlægir meira af gróðurhúsalofttegundum úr loftinu en er losað.


Tengdar fréttir

Samdráttur í losun í faraldrinum sagður fordæmalaus

Losun mannkynsins á gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum hrundi um sautján prósent á milli ára vegna kórónuveiruheimsfaraldursins þegar mest lét í fyrri hluta apríl samkvæmt nýrri greiningu vísindamanna. Samdrátturinn er talinn verða skammvinnur og umtalsvert minni fyrir árið í heild.

Stefnir í metsamdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda

Losun mannkynsins á gróðurhúsalofttegundum sem valda hnattrænni hlýnun stefnir í að dragast saman um tæp átta prósent á þessu ári vegna kórónuveiruheimsfaraldursins. Þrátt fyrir að það er þróunin ekki endilega talin góð fyrir baráttuna gegn loftslagsbreytingum af völdum manna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×