Erlent

Segir mistök að hafa ekki gert eins og Íslendingar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Anders Tegnell er sóttvarnalæknir Svíþjóðar.
Anders Tegnell er sóttvarnalæknir Svíþjóðar. Jessica Gow/EPA

Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, segist hafa gert mistök í upphaflegum viðbrögðum sínum við kórónuveirufaraldrinum í Svíþjóð. Hann segir að upplýsingar sem síðar komu fram hefðu leitt til þess að ferðalangar frá Austurríki til Svíþjóðar hefðu verið prófaðir fyrir veirunni, líkt og gert var við þá sem komu til Svíþjóðar frá Ítalíu. Íslendingar eru meðal þeirra sem vöruðu við fjölda smitaðra sem komu frá austurríska bænum Ischgl.

Þetta kemur fram í umfjöllun sænska dagblaðsins Expressen. Þar er meðal annars dreginn fram munurinn á viðbrögðum Svía og Íslendinga þegar fregnir tóku að berast af því að fólk sem hefði verið statt í  skíðabænum Ischgl hefði greinst með kórónuveiruna.

Þar er sagt frá því hvernig íslensk heilbrigðisyfirvöld létu yfirvöld í Ischgl strax vita. Frá þeim fengust þó þau svör að „út frá læknisfræðilegu sjónarhorni“ væri ólíklegt að fólkið sem greindist hér á landi hefði smitast í Austurríki.

„Íslendingarnir voru ekki sannfærðir,“ segir í Expressen.

„Þegar fleiri tilfelli veirunnar greindust hjá fólki sem ferðast hafði frá Ischgl til Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs og Þýskalands, og austurrísk stjórnvöld héldu áfram að neita fyrir tenginguna, ákvað Ísland að setja svæðið á lista áhættusvæða ásamt Kína, Suður-Kóreu, Íran og Ítalíu.“

Aðra sögu var hins vegar að segja í Svíþjóð. Þar hafi sjónum heilbrigðisyfirvalda nánast eingöngu verið beint að Ítalíu, þrátt fyrir háværar viðvaranir hér á landi um að veiran leyndist víðar. Nú hefur Tegnell, eins og áður sagði, viðurkennt að þetta hafi verið mistök.

Covid-19 sjúkdómurinn hefur dregið alls 4.395 manns til dauða í Svíþjóð, þar af 45 síðasta sólarhringinn. Þannig hafa fleiri látist af völdum sjúkdómsins í landinu en á öllum öðrum Norðurlöndunum til samans.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.