Íslenski boltinn

Rautt spjald og dómarinn vildi flauta af á Akranesi | Rosalegt innkast skilaði KA sigri | Myndbönd

Sindri Sverrisson skrifar
Gonzalo Zamorano lék með ÍA síðasta sumar en fór svo aftur til Víkings í Ólafsvík.
Gonzalo Zamorano lék með ÍA síðasta sumar en fór svo aftur til Víkings í Ólafsvík. VÍSIR/DANÍEL

Það er grunnt á því góða á milli ÍA og Víkings Ó. ef marka má æfingaleik liðanna á Akranesi í dag, í fótbolta karla, þar sem dómarinn virtist vilja flauta leikinn af eftir ljót brot og mikinn æsing í báðum liðum.

ÍA vann leikinn 2-1, með sigurmarki Tryggva Hrafns Haraldssonar úr vítaspyrnu undir lokin, en fram að því hafði mikið gengið á. Upp úr sauð eftir að Sindri Snær Magnússon úr liði ÍA henti sér í tæklingu aftan í Gonzalo Zamorano, sem lék með ÍA í fyrra, úti við hliðarlínu og fékk rautt spjald fyrir. Reyndar tókst að halda leik áfram en aðeins nokkrum sekúndum síðar henti Zamorano sér sjálfur í ljóta tæklingu og það var þá sem Ívar Orri Kristjánsson flautaði ótt og títt í flautu sína og virtist ætla að ljúka leik. Zamorano slapp reyndar við rautt spjald og eftir nokkrar hrindingar og æsing tókst að stilla til friðar og klára allar 90 mínúturnar, af þessum æfingaleik.

Það var Viktor Jónsson sem skoraði fyrra mark ÍA en Indriði Áki Þorláksson jafnaði metin fyrir Víkinga sem leika í Lengjudeildinni í sumar eins og síðustu ár. ÍA leikur í Pepsi Max-deildinni líkt og í fyrra.

Lagði upp sigurmark KA með mögnuðu innkasti

Á Akureyri vann KA 1-0 sigur gegn Fylki í æfingaleik, þar sem Brynjar Ingi Bjarnason skoraði sigurmarkið með skalla eftir rosalegt innkast danska varnarmannsins Mikkel Qvist. Innköstin hans vöktu verðskuldaða athygli á Akureyri í dag.

Það munaði reyndar litlu að Ragnar Bragi Sveinsson næði að verja skalla Brynjars, með hendi, en hann hefði þá fengið rautt spjald og vítaspyrna verið dæmd. Boltinn fór hins vegar rétt inn fyrir marklínuna að mati dómara og því var markið látið standa.


Tengdar fréttir

Emil skoraði í sigri FH

Landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson spilar hugsanlega með FH í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í sumar. Hann lék með liðinu í æfingaleik gegn Fram í dag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.