Enski boltinn

Faðir stjóra Aston Villa lést af völdum veirunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dean Smith missti föður sinn í gær.
Dean Smith missti föður sinn í gær. getty/Neville Williams

Ron Smith, faðir Deans Smith, knattspyrnustjóra Aston Villa, er látinn af völdum Covid-19. Hann var 79 ára.

Ron Smith greindist með kórónuveiruna fyrir fjórum vikum síðan. Hann lést á spítala í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Aston Villa.

Ron Smith var dyggur stuðningsmaður Aston Villa og vann um tíma fyrir félagið. Í tilkynningunni frá Aston Villa kemur fram að Ron Smith hafi m.a. verið viðstaddur þegar liðið vann Bayern München, 1-0, í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða 1982.

Börn Rons Smith héldu einnig með Aston Villa og sonur hans, Dean, tók við liðinu í október 2018.

Undir hans stjórn fór Aston Villa upp í ensku úrvalsdeildina í fyrra. Liðið var í nítjánda og næstneðsta sæti hennar þegar keppni var sett á ís vegna kórónuveirufaraldursins. Þá komst Aston Villa í úrslit deildabikarsins þar sem liðið tapaði fyrir Manchester City, 2-1.

Dean Smith skrifaði undir nýjan samning við Aston Villa í lok nóvember í fyrra. Samningurinn gildir til 2023.

Hann er ekki eini stjórinn í ensku úrvalsdeildinni hefur misst foreldri vegna veirunnar. Móðir Peps Guardiola, stjóra Manchester City, lést í apríl, 82 ára að aldri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.