Innlent

Sá sem lést var á sjötugsaldri

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Sjúklingurinn sem lést af völdum COVID-19 á Landspítalanum í gær var á sjötugsaldri. Níu eru látnir af völdum sjúkdómsins á Íslandi.

Af þeim níu sem látist hafa af völdum sjúkdómsins létust sjö á Landspítalanum, einn á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík og einn á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík. Sá sem lést á Húsavík var erlendur ferðamaður á fertugsaldri. Aðrir sem látið hafa lífið af völdum sjúkdómsins voru komnir yfir sextugt. 

Andlát vegna COVID-19Grafík/Hafsteinn

Fimmtán greindust með kórónuveiruna síðastliðinn sólarhring en það eru aðeins fleiri en í síðustu daga. Þrír eru á gjörgæsludeildum Landspítalans og á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þar af eru tveir í öndunarvél.

„Kúrfan er svona á svipuðu róli. Í kringum tíu plús mínus og þetta er svona eins og við höfum sagt áður að fallið niður er svona tiltölulega hægt og hefur það verið í öðrum löndum og ég held að við þurfum ekki að búast við því að það fari mjög hratt niður,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir óvíst hvernig hægt verði að hátta samkomum í sumar. Vísir/Vilhelm

Í minnisblaði sem sóttvarnarlæknir sendi heilbrigðisráðherra á dögunum kom fram að gert er ráð fyrir að fjöldasamkomur í sumar verði miðaðar við tvö þúsund manns. Þórólfur segir ekkert fast í hendi og enn eigi eftir að taka ákvörðun um fjöldatakmarkanir í sumar. 

„Við erum svona að reyna að fara bil beggja með því að tala um sumarið. Hvenær nákvæmlega tvö þúsund manna samkomur verða settar á, eða leyfðar, það er bara ómögulegt að segja eða hvort yfirleitt. Það verður bara að ráðast eftir því hvernig faraldurinn þróast. Ef að faraldurinn fer kannski að fara upp á við. Ég tala nú ekki um ef hann fer að koma á staði þar sem að menn áætla að halda svona samkomur þá held ég að það segi sig nú sjálft að menn þurfa að grípa til strangari aðgerða. Þannig að þetta er svona endurmat á hverjum degi sem að þarf að eiga sér stað,“ segir Þórólfur.


Tengdar fréttir

Lést á Landspítalanum vegna Covid-19

Sjúklingur lést undanfarinn sólarhring á Landspítalanum vegna Covid-19 sjúkdómsins. Þetta kemur fram á vef Landspítalans.

Andlát vegna Covid-19

Sjúklingur lést undanfarinn sólarhring á Landspítala vegna Covid-19 sjúkdómsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×