Erlent

Veiran á svo hröðu undan­haldi að hún setur fram­tíð Ox­ford-bólu­efnis í upp­nám

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Adrian Hill er bóluefnissérfræðingur og yfirmaður Jenner-stofnunarinnar við hinn breska Oxford-háskóla.
Adrian Hill er bóluefnissérfræðingur og yfirmaður Jenner-stofnunarinnar við hinn breska Oxford-háskóla. Oxford/Getty

Adrian Hill, bóluefnissérfræðingur og yfirmaður Jenner-stofnunarinnar við hinn breska Oxford-háskóla, segir aðeins helmingslíkur á því að bóluefni sem stofnunin þróar nú við nýju kórónuveirunni virki sem skyldi. Það sé vegna þess hve hratt smitum fækkar nú í Bretlandi.

Vísindamenn við Jenner-stofnunina í Oxford hófu þróun bóluefnis við veirunni strax í janúar og nota til þess veiru úr simpönsum. Veiran hefur leikið Breta afar grátt en tæplega 37 þúsund hafa nú látist af völdum hennar í landinu, næstflestir á heimsvísu. Faraldurinn er þrátt fyrir það í rénun í Bretlandi, líkt og víða annars staðar, og það setur framtíð Oxford-bóluefnisins í uppnám.

„Þetta er kapphlaup við brotthvarf veirunnar og tímann. Við sögðum fyrr á árinu að það væru áttatíu prósent líkur á því að þróun bóluefnis sem virkaði tækist áður en september gengi í garð. En eins og staðan er núna eru fimmtíu prósent líkur á því að við fáum enga niðurstöðu. Við erum í þeirri skrítnu stöðu að vilja að Covid staldri við, að minnsta kosti í smá stund,“ sagði Hill í samtali við breska dagblaðið Sunday Telegraph í gær.

Prófanir á bóluefninu, sem gengur undir heitinu ChAdOx1 nCoV-19, hófust fyrir nokkru síðan. Fyrsta skrefið fólst í því að sprauta því í 160 heilbrigða einstaklinga á aldrinum 18 til 55 ára.

Ráðgert er að prófa bóluefnið á allt að tíu þúsund einstaklingum, þar af einnig börnum og öldruðum, í öðru og þriðja skrefi rannsóknarinnar.

Framgangur bóluefnisins er þó háður því að nægilega margir Bretar greinist með veiruna. Greinist of fáir verður ekki hægt að sannreyna virkni bóluefnisins, og þar með yrði loku fyrir það skotið að koma því í almenna notkun í breska heilbrigðiskerfinu, að því er fram kemur í frétt Sky-fréttastofunnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.