Erlent

Mikill munur á Suður-Kóreu og Ítalíu: Fleiri náðu sér en smituðust í Suður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Lestarstöð í Suður-Kóreu sótthreinsuð.
Lestarstöð í Suður-Kóreu sótthreinsuð. AP/Lee Jin-man

Sá áfangi náðist í fyrsta sinn í Suður-Kóreu í dag að fleiri náðu sér af Covid-19, sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur, en smituðust á einum degi. Alls greindust 110 smit á milli daga og þrír létu lífið. 177 manns náðu sér af veirunni á milli daga.

Á einum degi náðu fleiri sér af veirunni en greindust með hana og því fækkaði heildarfjölda smitaðra. Það var í fyrsta sinn og embættismenn búast við því að þessi þróun muni halda áfram næstu daga. 

Þrátt fyrir að nýja kórónuveiran hafi greinst upphaflega á svipuðum tíma í Suður-Kóreu og Ítalíu er himinn og haf á stöðunni í löndunum tveimur.

Á undanfarinni viku hafa greinst tæplega tólf þúsund ný tilfelli á Ítalíu en einungis tæplega tvö þúsund í Suður-Kóreu. Í heildina hafa greinst um fimmtán þúsund smit á Ítalíu, sem samsvarar um 25 smitum á hverja hundrað þúsund íbúa, og tæplega átta þúsund í Suður-Kóreu, eða um sextán smit á hverju hundrað þúsund íbúa.

Þar að auki hafa rúmlega þúsund manns dáið á Ítalíu en einungis 70 í Suður-Kóreu.

Munurinn liggur þó ekki einungis í fjölda smita heldur einnig í aðstæðum íbúa. Yfirvöld Ítalíu hafa svo gott sem sett alla íbúa landsins í sóttkví en ekki hefur verið gripið til sambærilegra aðgerða í Suður-Kóreu. Þar eru um 29 þúsund manns í sóttkví en engum tilteknum svæðum landsins hefur verið lokað.

Munur þessi útskýrist að miklu leyti á mismunandi aðferðum yfirvalda ríkjanna tveggja gegn veirunni, samkvæmt greiningu Reuters fréttaveitunni.

Á Ítalíu ákváðu yfirvöld að reyna ekki að elta uppi smitaða og beittu þess í stað sóttkví til að draga úr smitum. Búið er að greina rúmlega 73 þúsund sýni.

Í Suður-Kóreu fara yfirvöld fram gegn sjúkdómnum af mikilli hörku. Búið er að greina sýni úr rúmlega 222 þúsund manns og er notast við gögn úr farsímum og gervihnöttum til að fylgjast með ferðum fólks sem talið er vera smitberar.

Kínverjar, sem virðast hafa náð tökum á útbreiðslu kórónuveirunnar beittu svipuðum en þó mun grófari aðferðum.

Sjá einnig: Sýktir í Wuhan fluttir í vöruskemmur

Sérfræðingar segja erfitt að alhæfa út frá samanburði ríkjanna. Niðurstaðan gefi þó sterkar vísbendingar um að umfangsmikil skimun fyrir sjúkdómnum sé öflugt tól til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar.


Tengdar fréttir

Trump lokar á ferðalög frá Evrópu til Bandaríkjanna

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur tilkynnt ferðabann frá Evrópu til Bandaríkjanna í þrjátíu daga frá og með miðnætti á föstudag vegna kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 sjúkdómnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×