Erlent

Kínverjar segja að hámarki faraldursins hafi verið náð

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjúklingar og læknar yfirgefa bráðabirgðasjúkrahús í Wuhan eftir að allir sjúklingar þar voru útskrifaðir fyrr í vikunni.
Sjúklingar og læknar yfirgefa bráðabirgðasjúkrahús í Wuhan eftir að allir sjúklingar þar voru útskrifaðir fyrr í vikunni. Vísir/EPA

Innan við tíu ný kórónuveirusmit greindust í Hubei-héraði í Kína þar sem faraldurinn hefur verið sem verstur í gær. Heilbrigðisyfirvöld þar fullyrða að faraldurinn hafi nú þegar náð hámarki og sé í rénun. Smám saman er byrjað að létta á aðgerðum sem komið var á til að hefta útbreiðslu veirunnar.

Þetta er í fyrsta skipti frá því að kórónufaraldurinn braust út í Kína sem innan við tíu ný smit greinast á einum degi. Smitin í Hubei-héraði voru átta, öll þeirra í Wuhan-borg, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Utan Hubei greindust sjö ný tilfelli á meginlandi Kína. Sex þeirra smituðust erlendis.

„Almennt talað er hámark faraldursins liðið hjá í Kína. Fjölgun nýrra tilfella fer lækkandi,“ segir Mi Feng, talsmaður heilbrigðisnefndar Kína.

Mörgum fyrirtækjum hefur nú verið leyft að hefja starfsemi aftur og slakað hefur verið á ferðatakmörkunum. Kínversk stjórnvöld gripu til umfangsmikilla aðgerða til að stöðva útbreiðslu veirunnar fyrr á þessu ári, þar á meðal með því að setja ellefu milljónir íbúa Wuhan-borgar nánast í einangrun. Nýja afbrigði kórónuveirunnar sem veldur Covid-19-sjúkdómnum kom fyrst upp í borginni í desember.

Alls hafa nú 80.793 smitast af kórónuveirunni í Kína og 3.169 látið lífið. Af þeim sem hafa sýkst hafa nærri því áttatíu prósent þegar náð bata og verið útskrifuð af sjúkrahúsi.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin lofaði viðbrögð kínverskra og suður-kóreskra stjórnvalda við faraldrinum í vikunni. Kínversk stjórnvöld gripu til harðra aðgerða með viðamikilli leit að mögulega smituðu fólki, greininingum, sóttkví í sérstökum miðstöðvum og umfangsmiklum ferðatakmörkunum.


Tengdar fréttir

Staðan að skána í Kína

Stjórnvöldum í Kína virðist takast vel að hefta útbreiðslu nýju kórónuveirunnar. Læknir hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sagði hægt að læra af hörðum og snöggum viðbrögð Kínverja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×