Erlent

Fyrsta stað­festa kórónu­veiru­smitið rakið aftur til 17. nóvember

Atli Ísleifsson skrifar
Útbreiðsla kórónuveirunnar hefur haft mikil áhrif á kínverskt samfélag síðustu mánuði. Önnur ríki heims hafa einnig verið að grípa til harðra aðgerða til að hefta útbreiðslu veirunnar.
Útbreiðsla kórónuveirunnar hefur haft mikil áhrif á kínverskt samfélag síðustu mánuði. Önnur ríki heims hafa einnig verið að grípa til harðra aðgerða til að hefta útbreiðslu veirunnar. Getty

Búið er að rekja fyrsta staðfesta kórónuveirusmitið aftur til 17. nóvember síðastliðinn.

Þetta kemur fram í minnisblöðum kínverskra stjórnvalda sem South China Morning Post segir frá. Í skjölunum kemur fram að 55 ára maður í Hubei-héraði sé sá fyrsti sem vitað er að smitaðist af veirunni.

Grunur leikur þó á að allra fyrsta smitið kunni að hafa komið nokkru fyrr. Enn sem komið er hefur ekki tekist að rekja smitin aftar í tíma, en mikilvægt er að rekja smitin aftur til þess sem smitaðist fyrst til að gera sér grein fyrir því hvernig veiran myndaðist og fór svo í dreifingu milli manna.

266 manns hið minnsta smituðust á síðasta ári

Kínverskum yfirvöldum hefur enn sem komið er tekist að finna 266 manns sem smituðust af kórónuveirunni, sem veldur sjúkdómnum COVOD-19, á síðasta ári. Öll leituðu þau til lækna á tímabilinu.

Í frétt South China Morning Post segir að dagana eftir 17. nóvember hafi verið tilkynnt um eitt til fimm ný tilfelli á dag. Þann 15. desember var búið að greina 27 manns með smit, en fimm dögum síðar var fjöldinn kominn í sextíu.

Zhang Jixian, læknir á sjúkrahúsi í Hubei, greindi heilbrigðisyfirvöldum frá því þann 27. desember að sjúkdóminn mætti rekja til nýs afbrigðis kórónuveiru. Þá höfðu 180 manns greinst með smit, þó að fullvíst megi teljast að raunverulegur fjöldi hafi verið mun hærri.

Á gamlársdag 2019 voru tilfellin í Kína 266, og á fyrsta degi nýs árs 381.

Um fimm þúsund látið lífið

Alls hafa nú rúmlega 80 þúsund manns greinst með veiruna í Kína og tæplega 3.200 látið lífið. Verulega hefur tekist að hefta útbreiðsluna í Kína, en sömu sögu er þó ekki að segja utan Kína.

Á heimsvísu hafa um 135 þúsund smit greinst og hafa tæplega fimm þúsund manns látið lífið af völdum veirunnar. Á Íslandi hafa 117 smit greinst.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.