Erlent

Víð­tæk skimun Ís­lendinga kom Dönum á sporið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá skíðasvæðinu Ischgl í Austurríki.
Frá skíðasvæðinu Ischgl í Austurríki. Vísir/getty

Víðtækar kórónuveiruskimanir íslenskra heilbrigðisyfirvalda hjá þeim sem komu til landsins frá skíðasvæðum í Austurríku opnuðu augu Dana fyrir smithættunni á þessum slóðum – og urðu að endingu til þess að dönsk yfirvöld hófu að skima fyrir veirunni hjá slíkum ferðalöngum. Þetta kom fram í máli Tyru Grove Krause, yfirlæknir Sóttvarnastofnunar Danmerkur, á blaðamannafundi vegna veirunnar í Danmörku í dag.

Kórónuveiran sem veldur Covid-19 sjúkdómnum hefur breiðst afar hratt út um Evrópu. Nær öll smit sem greinst hafa hér á landi má rekja til skíðasvæða í Ölpunum, þar af mörg í Týról í Austurríki og einkum á skíðasvæðinu Ischgl. Íslensk heilbrigðisyfirvöld hófu fljótt að skima fyrir veirunni hjá fólki sem hafði verið á skíðum í Austurríki og Ischgl var einmitt snemma skilgreint sem hættusvæði.

Nú eru 139 Danir smitaðir af kórónuveirunni eftir skíðaferðir í Austurríki. Grover Krause segir að útbreiðsla veirunnar sé gríðarleg í Týról en svæðið var þó ekki skilgreint sem hættusvæði í Danmörku fyrr en á mánudag.

Þá hafi það ekki verið fyrr en Íslendingar byrjuðu víðtækar skimanir fyrir veirunni, sem einskorðuðust ekki eingöngu við hættusvæði, að mikil útbreiðsla veirunnar í Austurríki uppgötvaðist.

Alls eru nú nær sjö hundruð staðfest kórónuveirusmit í Danmörku. Smitin eru orðin 117 á Íslandi, þar af á þriðja tug innanlandssmita.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×