Erlent

Réttarhöld yfir Netanjahú hefjast í dag

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Benjamín Netanjahú er ákærður fyrir spillingu í þremur liðum.
Benjamín Netanjahú er ákærður fyrir spillingu í þremur liðum. Vísir/EPA

Réttarhöld yfir Benjamín Netanjahú, einum tveggja eiginlegra forsætisráðherra Ísraels, hefjast í dag. Netanjahú er ákærður fyrir að þiggja mútur í formi jákvæðrar umfjöllunar um sig og gjafa frá valdamiklum viðskiptamönnum. Netanjahú neitar ásökunum á hendur sér staðfastlega.

Alls er málið gegn honum byggt upp af þremur ákæruliðum. Þannig er Netanjahú sakaður um að hafa þáð gjafir, aðallega vindla og kampavínsflöskur, frá valdamiklum viðskiptamönnum í skiptum fyrir greiða. Eins er hann sakaður um að hafa samþykkt að koma dagblaðinu Yediot Ahronot í aukna dreifingu, í skiptum fyrir jákvæða umfjöllun í miðlinum, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.

Að lokum er honum gefið að sök að hafa, í valdatíð sinni sem samskiptamálaráðherra, tekið ákvarðanir sem voru ráðandi hluthafa í fjarskiptafyrirtækinu Bezeq telecom, Shaul Elovitch, í vil. Þetta á hann að hafa gert í skiptum fyrir jákvæða umfjöllun um sjálfan sig.

Netanjahú er fyrsti sitjandi forsætisráðherra Ísraels sem er ákærður. Hann er jafnframt sá forsætisráðherra sem hefur setið lengst á valdastóli, eða frá 1996 til 1999 og svo allar götur síðan árið 2009.

Fari svo að Netanjahú verði sakfelldur í málinu getur hann þó áfram sinnt forsætisráðherraembættinu, í það minnsta um sinn. Það væri ekki fyrr en ekki væri lengur hægt að áfrýja máli hans sem hann þyrfti að láta af embætti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×