Erlent

Weinstein kennir sér meins eftir fall í fangelsi

Andri Eysteinsson skrifar
Nauðgarinn og fyrrum kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein telur sig hafa fengið heilahristing eftir fall í Rikers Island fangelsinu í New York. Þar bíður hann eftir því að verða gerð refsing eftir að hafa verið dæmdur sekur um nauðgun og önnur kynferðisbrot.

CNN hefur eftir talsmanni Weinstein, Juda Englemayer, að Weinstein hafi dottið snemma í morgun og hafi síðan kennt sér meins í höfði. „Hann telur sig hafa fengið heilahristing en það hefur ekki verið staðfest,“ segir Englemayer. Talsmaðurinn sagði enn fremur að Weinstein, sem á erfitt um gang, fái ekki að nota göngugrind í fangelsinu, honum hafi þá einnig svimað áður en hann datt.

Weinstein var sakfelldur fyrir dómi í New York 24. Febrúar síðastliðinn en skömmu síðar kenndi hann sér meins í hjarta og fór hann í hjartaaðgerð síðasta miðvikudag. Í aðgerðinni var komið fyrir stoðneti. Degi síðar var Weinstein fluttur aftur í fangelsið á Rikers-eyju.

Búist er við því að Weinstein verði gerð refsing í New York þann 11. mars næstkomandi. Hann á yfir höfði sér yfir tveggja áratuga fangelsisvist.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.