Erlent

Tom gamli í sjöunda himni og er búinn að safna 1,8 milljörðum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Tom er nú búinn að tíuþúsundfalda þá upphæð sem hann stefndi að í fyrstu.
Tom er nú búinn að tíuþúsundfalda þá upphæð sem hann stefndi að í fyrstu.

Hinn 99 ára gamli Tom Moore, sem setti sér það markmið að ganga hundrað sinnum yfir garð sinn fyrir hundrað ára afmæli sitt í lok apríl og safna í leiðinni þúsund pundum fyrir Heilbrigðisstofnun Bretlands, segist himinlifandi með viðtökurnar sem söfnun hans hefur fengið. Tom, sem býr í Bedfordskíri, er nú búinn að safna tíu milljónum punda, eða tíu þúsund sinnum hærri upphæð en hann ætlaði sér í fyrstu.

Tíu milljónir punda samsvara tæplega 1,8 milljörðum íslenskra króna. Fyrr í dag var greint frá því að Tom hefði safnað sex og hálfri milljón punda. Hann hefur þannig bætt við sig um það bil þremur og hálfri milljón punda síðan um hádegisbil í dag.

Í samtali við breska ríkisútvarpið BBC sagðist hann, ásamt dætrum sínum sem hjálpuðu honum að skipuleggja söfnunina, gáttaður á viðtökunum sem söfnun hans hefur fengið.

„Þegar við byrjuðum með þessa æfingu bjuggumst við ekki við að safna neinu nálægt þessari upphæð,“ sagði Tom í viðtali við BBC. Viðtalið var tekið eftir að hann náði yfir fimm milljón punda markið. Upphæð sem hann er á góðri leið með að tvöfalda.

Ætlar ekki að hætta að tölta um garðinn eftir hundrað ferðir

„Öll hjá Heilbrigðisstofnuninni, hvert og eitt einasta, eiga skilið allt sem við getum mögulega látið þau hafa. Þau eru öll svo hugrökk. Á hverjum degi og hverju kvöldi setja þau sig í hættu, og við verðum að gefa þeim hæstu einkunn fyrir það. Það er svolítið eins og við eigum í stríði, en það eru læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir sem eru í fremstu víglínu,“ sagði Tom og vísaði þar til þess gríðarlega álags sem heilbrigðiskerfið í Bretlandi er nú undir vegna kórónuveirufaraldursins.

„Við hin sem stöndum fyrir aftan verðum að láta þau hafa allt sem þau þurfa, svo þau geti sinnt starfi sínu jafnvel enn betur en nú,“ sagði Tom, sem sjálfur barðist í seinni heimsstyrjöldinni.

Þá hefur Tom sagt, í ljósi árangursins sem söfnun hans hefur náð, að hann muni halda áfram að ganga um garðinn sinn svo lengi sem fólk heldur áfram að heita á hann og styrkja þannig Heilbrigðisstofnun Bretlands.

Hér að neðan má sjá viðtal BBC við kappann, sem var tekið eftir að söfnunin náði fimm milljónum punda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×