Erlent

Annar heilbrigðisráðherra í stjórn Bolsonaro hrökklast úr embætti

Kjartan Kjartansson skrifar
Nelson Teich greindi frá afsögn sinni sem heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi í dag en gaf ekki upp ástæðu. Brasilískir fjölmiðlar segja að ágreiningur við Bolosnaro um notkun á malaríulyfi hafi verið dropinn sem fyllti mælinn.
Nelson Teich greindi frá afsögn sinni sem heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi í dag en gaf ekki upp ástæðu. Brasilískir fjölmiðlar segja að ágreiningur við Bolosnaro um notkun á malaríulyfi hafi verið dropinn sem fyllti mælinn. Vísir/EPA

Heilbrigðisráðherra Brasilíu sagði af sér í dag eftir innan við mánuð í embætti. Hann hefur verið ósammála Jair Bolsonaro forseta um viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum. Forveri hans í embættinu var rekinn vegna ágreinings við forsetann.

Nelson Teich hafði gagnrýnt tilskipun Bolsonaro forseta um að leyfa líkamsræktarstöðvum og snyrtistofum að hefja starfsemi á ný. Hann gaf þó enga ástæðu þegar hann greindi frá afsögn sinni á blaðamannafundi í dag, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Þakkaði hann Bolsonaro fyrir tækifærið til að gegna embættinu og heilbrigðisstarfsfólki fyrir störf sín.

Þrátt fyrir að Brasilíu sé orðin að einum af miðpunktum heimsfaraldursins með meira en 200.000 staðfest smit og tæplega 14.000 dauðsföll hefur Bolsonaro gert lítið úr honum. Forsetinn er andsnúinn takmörkunum eins og útgöngu- og samgöngubönnum og hefur ítrekað lýst faraldrinum sem „dálítilli flensu“. Útbreiðsla kórónuveirunni sé „óumflýjanleg“.

Teich hafði einnig verið ósáttur við þá áherslu sem Bolsonaro lagði á að nota malaríulyfið choloroquine sem meðferð við Covid-19, sjúkdómnum sem nýtt afbrigði kórónuveirunnar veldur. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir ekki ljóst að lyfið gagnist.

Þá hafði hann og forsetann greint á um áætlanir um að slaka á takmörkunum. Í síðustu viku sagði Teich að hann hefði ekki verið hafður með í ráðum áður en Bolsonaro gaf líkamsræktarstöðvum, hárgreiðslu- og snyrtistofum grænt ljós að hefja starfsemi aftur.

Bolsonaro rak Luiz Henrique Mandetta, forvera Teich í embættinu, fyrir innan við mánuði og gagnrýndi fyrir að hvetja landsmenn til þess að stunda félagsforðun og halda sig heima við til að draga úr útbreiðslu faraldursins.

Forsetinn hefur staðið fyrir mótmælum gegn sóttvarnaaðgerðum með stuðningsmönnum sínum. Hann hefur sætt gagnrýni lýðheilsusérfræðinga fyrir að taka faraldurinn ekki alvarlega.


Tengdar fréttir

Staðan í Suður-Ameríku er mun verri en opinberar tölur gefa til kynna

Þrátt fyrir að opinberar tölur sýni ekki fram á það er útlit fyrir að faraldur nýju kórónuveirunnar í Suður-Ameríku sé á pari við faraldurinn í Evrópu og jafnvel í New York. Faraldurinn í Suður-Ameríku hefur þar að auki fengið mun minni athygli en víðast hvar annarsstaðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×